Grámygla (Gnaphalium uliginosum)

Útbreiðsla

Sjaldgæf, vex eingöngu á jarðhitasvæðum, aðallega á suðvesturlandi. Tegundin er þekkt að því að berast með manninum, og víðast hvar þar sem grámyglan vex við laugar er eða hefur verið nokkur umferð. Því er alls ekki ólíklegt að hún hafi borist með byggðinni fyrr á öldum, og er nú orðin útbreidd á þeim jarðhitasvæðum þar sem umferð er nokkur.

Búsvæði

Vex nær eingöngu á jarðhitasvæðum, leirflög eða mosabreiður við hveri og laugar.

Lýsing

Einær, lágvaxin jurt (5–12) með nokkrum blómum í þéttstæðum körfum. Blómgast í júlí–ágúst.

Blað

Stöngullinn marggreindur, þéttvaxinn hvítum lóhárum. Blöðin gagnstæð, lensulaga eða striklaga, þéttlóhærð, 10–25 mm löng, 2–4 mm breið, breiðust ofan til (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin nokkur saman í litlum, þéttstæðum körfum með odddregnum reifablöðum sem eru himnukennd og brúnleit ofan til en græn með purpurarauðri rönd neðst. Krónupípan 1–1,5 mm á lengd, mjög grönn (0,1–0,2 mm), gulgræn að lit. Bikarinn ummyndaður í hárkrans (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist grámullu, grámyglan þekkist best á hinum marggreinda stöngli og að stofnstæðu blaðhvirfingarnar vantar.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Körfublómaætt (Asteraceae)
Tegund (Species)
Grámygla (Gnaphalium uliginosum)