Hjartafífill (Crepis paludosa)

Útbreiðsla

Sjaldgæfur, hefur aðeins fundist í útsveitum beggja megin Eyjafjarðar. Vestan megin er útbreiðslusvæði hans frá Höfðahólum á Höfðaströnd í Skagafirði, um Fljótin, Siglufjörð, Héðinsfjörð og Ólafsfjörð allt inn undir Dalvík. Austan Eyjafjarðar hefur hann fundist á nokkrum stöðum á Látraströnd, í Þorgeirsfirði, Hvalvatnsfirði og Flateyjardal.

Búsvæði

Hann vex í gilskorningum, í krikum undir börðum og gilbrekkum eða í kjarri á snjóþungum svæðum. Velur sér stundum svipaða vaxtarstaði og skollakambur og er fremur inni í dölum en alveg út við ströndina.

Lýsing

Hávaxinn fífill (40–70 sm) með blöðóttum stöngli með gulum blómkörfum í toppinn. Blómgast í ágúst.

Blað

Stönglar eru nánast hárlausir. Laufblöðin eru nær hárlaus, fagurljósgræn ofan en grágræn undir. Stöngulblöðin eru greipfætt og tennt, þau efri mjóhjartalaga eða lensulaga, þau neðstu ganga niður í vængjaðan stilk líkt og stofnblöðin.

Blóm

Margar, þéttar, körfur á löngum leggjum í hálfsveip (Lid og Lid 2005). Körfurnar eru 2-3 sm í þvermál, reifablöðin í tveim krönsum, innri reifablöðin 12-13 mm á lengd, grænsvört með svörtum kirtilhárum, þau ytri miklu styttri en mislöng. Öll blómin eru tungukrýnd, gul, fræflar 5, samvaxnir í hólk utan um stílinn, tvíklofið fræni.

Aldin

Aldin ljósgul með tíu rifjum. Svifhárakrans gráhvítur (Lid og Lid 2005).

Greining

Hann minnir nokkuð á suma undafífla.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Körfublómaætt (Asteraceae)
Tegund (Species)
Hjartafífill (Crepis paludosa)