Birki (Betula pubescens)

Útbreiðsla

Birki er algengasta skógartréð á Íslandi og myndar skóga og kjarr á þurrlendi upp að 400–450 m hæð yfir sjó. Áður fyrr var það útbreitt um allt láglendi landsins og myndaði víða samfellda skóga. Hæst vex birkið í um 550 m eða ríflega það, t.d. í Stórahvammi efst í Austurdal, Skagafirði og , í Fljótsgili við Skjálfandafljót og í Hlíðarfjalli og Jörundi við Mývatn. Nýlega voru útbreiðslumörk þess í Austurdal könnuð betur en áður var gert, og var þá talið að það næði yfir 600 m þar sem hæst er, og í Útigangshöfða í Goðalandi fannst nýlega ein hrísla töluvert fyrir ofan 600 m.

Almennt

Frjótími: Blómgun getur hafist um miðjan maí en oftast fara frjókorn að dreifast í síðustu viku maí og nær frjódreifing hámarki öðru hvoru megin við mánaðamótin maí / júní. Vorveðrátta hefur mikil áhrif á það hvenær frjótíminn hefst, því hlýrri apríl þeim mun fyrr blómgast birkið. Frjótíminn stendur yfir í 2 – 3 vikur, háð veðri, ef kalt er og vætutíð getur tognað úr þeim tíma sem birkifrjó eru í lofti.

Víxlbinding: Víxlbinding er algeng meðal ættkvísla ættbálksins Fagales, t.d. elri, hesli, agnbeyki, beyki, eik og kastanía. Einnig er víxlbinding algeng við græn epli (fersk).

Skaðsemi

Ofnæmisviðbrögð: Birkifrjókorn geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum.

Búsvæði

Þurrlendi (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Runni eða tré sem getur verið allt frá 1–12 m hátt. Blómgast í maí–júní.

Blað

Börkurinn er brúnn, nær hvítur, eða rauðbrúnn og flysjast af í þynnum sem kallast næfrar. Blöðin eru gróftennt, egglaga, fjaðurstrengjótt en odddregin, 2–4,5 sm löng og nokkuð stilklöng, bæði blöð og greinaendar ofurlítið loðin. Vaxtarlag mjög breytilegt eftir loftslagi, myndar oftast þétt og lágvaxið kjarr við ströndina og þar sem stormasamt er en hávaxnari tré inn til landsins (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin einkynja í reklum. Kvenreklarnir uppréttir í fyrstu, um 2 sm á lengd. Rekilhlífarnar þrísepóttar í endann. Blómin standa þrjú og þrjú saman, hvert með einni frævu og tveim stílum. Karlreklarnir lengri og ljósari en kvenreklarnir, hanga oftast niður. Karlblómin hafa tvo klofna fræfla. Framan við blómin standa rekilhlífar sem eru þrísepóttar í endann (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldin birkisins er örsmá hneta með allbreiðum væng (Hörður Kristinsson 2010).

Afbrigði

Sums staðar má finna einn og einn kynblending birkis og fjalldrapa er nefnist skógviðarbróðir. Hann er tíðari um norðanvert landið þar sem mest er af fjalldrapa (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Það má greina birki frá fjalldrapa á því að hann er með mun minni og kringlóttari blöð (Hörður Kristinsson 2010).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Bjarkarætt (Betulaceae)
Tegund (Species)
Birki (Betula pubescens)