Gleym-mér-ei (Myosotis arvensis)

Útbreiðsla

Víðast algeng á láglendi en vantar þó á nokkru svæði á Norðausturlandi og á Hornströndum. Hún fer lítið upp til fjalla, aðeins á örfáum stöðum ofan 500 m, hæst skráð við Laugafell í 720 m við jarðhita. Gleym-mér-ei hefur krókhár á bikarblöðunum og festist því auðveldlega við föt og eins ull á kindum og dreifist líklega nokkuð með þeim.

Búsvæði

Gilbrekkur, hagar og mólendi, einkum þó í nánd við byggð (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Meðalhá planta (10–30 sm), hærð, með fagurblá blóm. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blöðin stakstæð, lensulaga en frambreið (5–7 mm), alsett hvítum hárum eins og stöngullinn (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin eru 4–5 mm í þvermál. Krónufliparnir snubbóttir, heiðbláir en gulir eða hvítleitir innst við blómginið. Óþroskaðir blómknappar rauðleitir og í uppvafinni hálfkvísl áður en þeir springa út, hún réttir síðan úr sér og eftir blómgun virðast leggjaðir bikararnir standa í klasa niður eftir stönglinum. Bikarinn fimmtenntur, klofinn niður fyrir miðju, alsettur hvítum krókhárum. Fræflar fimm, innilokaðir í krónupípunni (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinleggirnir helmingi lengri en bikarinn. Fjögur gljáandi dökkbrún deilialdin í botni bikaranna (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Gleim-mér-ei þekkist frá engjamunablómi og sandmunablómi á lengri blóm- og aldinleggjum (helmingi lengri en bikarinn).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Munablómsætt (Boraginaceae)
Tegund (Species)
Gleym-mér-ei (Myosotis arvensis)