Fjallkrækill (Sagina caespitosa)

Útbreiðsla

Fremur sjaldgæfur á Íslandi, finnst einkum frá fjöllunum umhverfis Fnjóskadal og austur undir Langanes, frá Eyjafirði austur um Norðausturland og Austfirði suður undir Lón, og einkum þá nær ströndinni fremur en langt inni í landi. Utan þessa svæðis hefur hann fundist á nokkrum fellum innanvert við Auðkúluheiði í Húnavatnssýslu, á Ströndum, og að lokum eru stakir fundarstaðir uppi á Hólminum við Hítarvatn og á Kaldbak á Síðumannaafrétti. Hann finnst nær eingöngu til fjalla, mestmegnis í 400-800 m hæð, en stundum þó neðar, allt niður í 200 m. Hæst hefur hann fundist í 900 m hæð. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um að útbreiðsla fjallkrækilsins sé að dragast saman, þar sem hann hefur oft ekki fundist aftur á stöðum þar sem hann áður var.

Búsvæði

Fjallamelar. Flög eða flagkenndir móar, venjulega uppi á flötum fjallanna eða uppi á hæðum og bungum, einkum þar sem deigur jarðvegur er.

Lýsing

Smávaxin jurt með hvítum fimmdeildum blómum.

Blað

Vex oftast í þyrpingum eða myndar smáþúfur. Laufblöðin eru gagnstæð, striklaga, broddydd, 3-5 mm löng, stofnblöðin oft lengri, hárlaus.

Blóm

Blómin eru 4-6 mm í þvermál, oftast fimmdeild, sjaldnar fjórdeild, krónublöðin hvít, lítið eitt lengri en bikarblöðin. Blómstönglar stuttir (1-2 sm). Bikarblöðin eru egglaga eða sporbaugótt, snubbótt eða sljóydd í endann, oftast meir eða minna rauðfjólublá­menguð, einkum jaðarinn, en stundum græn, 2-3 mm löng. Fræflar eru tíu, frævan ein með 5 fræni.

Aldin

Aldinið er meira eða minna hnöttótt hýðisaldin, aðeins lengra en bikarinn, sem lykur þétt um aldinið.

Greining

Líkist helst snækrækli en ólíkt honum myndar fjallkrækill örsmáar þúfur.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Súrsmæra flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem stofninn er talinn lítill og telji færri en 1000 fullþroska einstaklinga auk þess sem stöðug fækkun hefur verið greind undanfarin ár.

Viðmið IUCN: C2a(i)

C. Stofn talinn minni en 250 fullþroska einstaklingar og:
C2. Fullþroska einstaklingum hefur fækkað samfellt samkvæmt athugun, áætlun eða ályktun OG:
(a) Stofngerð þannig að;
(i) enginn undirstofn sé talinn stærri en 50 fullþroska einstaklingar.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Fjallkrækill er á válista í hættuflokknum VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Fjallkrækill er á válista í hættuflokknum LR (í nokkurri hættu).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Hjartagrasætt (Caryophyllaceae)
Tegund (Species)
Fjallkrækill (Sagina caespitosa)