Melasól (Papaver radicatum)

Útbreiðsla

Algeng í sumum landshlutum, í öðrum aðeins til fjalla. Algeng um alla Vestfirði og nokkuð víða um Snæfellsnes, Borgarfjörð og Húna-vatnssýslur. Á þessu svæði finnst hún bæði á láglendi og til fjalla. Hún er einnig útbreidd á Austfjörðum, en þar mest til fjalla þótt hún finnist stundum á áreyrum á láglendi eða skriðum neðarlega í fjöllum. Á Miðnorðurlandi er hún nokkuð víða hátt til fjalla, mest í 600 til 1000 m hæð, en finnst ekki á láglendi.

Almennt

Melasól var talin góð við svefnleysi og fékk því nafnið svefngras. Eins þótti hún góð við verkjum og sinadrætti (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Melar og sendinn jarðvegur, klettar eða fjallarindar (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fjölær, fremur lágvaxin planta (8–20 sm), hærð og blómstrar stórum hvítum, fölgulum eða fölbleikum blómum í júní.

Blað

Stönglarnir blaðlausir, brúnhærðir, þétthærðir. Blöðin í stofnhvirfingum, stilkuð, fjaðurflipótt eða sepótt, grófhærð á efra og neðra borði.

Blóm

Blómin eru 2,5–3 sm í þvermál og oftast gul á litinn en stundum bleik eða hvít. Krónublöðin fjögur, 1,5-2,2 sm löng. Bikarblöðin eru tvö, alsett dökkbrúnum hárum, 10-15 mm löng og lykja alveg um blómin áður en þau springa út, en falla strax af við blómgun. Fræflar eru margir, 8-10 mm langir, frjóhirslur gular. Ein stór fræva alsetta brúnsvörtum, stinnum hárum, frænið kross- eða stjörnulaga með 4-6 örmum ofan á flötum toppi frævunnar.

Aldin

Aldinið er um 12 mm langt, rifjað sáldhýði með röð af götum efst á milli frænisarmanna. Fræin fjölmörg, nýrlaga, brún, örsmá, um 1 mm á lengd.

Afbrigði

Gul afbrigði eru algengust, en á Vestfjörðum eru til hvít eða bleik afbrigði sem kallast Stefánssól og eru mjög sjaldgæf.

Greining

Líkist helst garðasól sem er með hárlaus blöð, margskiptara fræni og miklu stærri blóm. Annars auðþekkt á stórum fjórdeildum blómum.

Variation

Þrjár Deilitegundir eru á Íslandi: subsp. radicatum, subsp. stefanssonii og subsp. steindorssonianum. Subsp. radicatum er algeng á Vestfjörðum, og finnst víða á Snæfellsnesi og á nokkrum stöðum öðrum á Vesturlandi, en einnig á Norðurlandi, einkum til fjalla. Hún ber gul blóm og hefur gulan mjólkursafa. Subsp. stefanssonii hefur fundist á Vestfjörðum og vestan til á Norðurlandi. Hún hefur ýmist hvít eða rauðbleik blóm, en hvítan mjólkursafa. Subsp. steindorssonianum vex víða á Austfjörðum frá Njarðvík suður í Öræfi og hefur gulblóm en hvítan mjólkursafa. Allar þessar deilitegundir eru einlendar á Íslandi, en samkvæmt nýrri rannsóknum á erfðaefni þessara plantna hvílir þessi skipting í deilitegndir á afar veikum grunni, og því ef til vill réttara að telja alla þessa stofna til sömu deilitegundar, subsp.radicatum.

Válistaflokkun

Afbrigðið ssp. Stefanssonii, stefánssól, er á válista í hættuflokki VU (í nokkurri hættu). 

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson. 1994. Íslensk flóra með litmyndum. Forlagið, Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Draumsóleyjarætt (Papaveraceae)
Tegund (Species)
Melasól (Papaver radicatum)