Selgresi (Plantago lanceolata)

Útbreiðsla

Aðalheimkynni þess eru syðst á landinu. Það vex einkum undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Á norðanverðu landinu vex það eingöngu við jarðhita og laugar.

Búsvæði

Brattar grasbrekkur og blómlendi. Vex eingöngu við jarðhita og laugar á norðanverðu landinu.

Lýsing

Meðalhá planta (15–35 sm) með lensulaga blöð og blómin í hnöttóttu axi. Blómgast í júlí.

Blað

Stöngullinn hærður, blaðlaus. Blöðin stofnstæð, stilklöng. Blaðkan er lensulaga eða oddbaugótt, nær heilrend, bogstrengjótt, 2,5-10 sm löng og 2-8 sm á breidd.

Blóm

Blómin smá, þétt saman í 2-12 sm löngu, kringlóttu axi. Krónan móleit, himnukennd, 4 mm löng, klofin í fjóra oddmjóa flipa til miðs. Bikarblöðin fjögur, um 2–3 mm á lengd, snubbótt, græn, dökkkbrún efst, himnukennd neðan til með grænni miðtaug. Fræflar fjórir með stórar, 2–3 mm langar frjóhirslur. Frævan með einum, alllöngum stíl.

Aldin

Baukaldini sem opnast með þverskoru.

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Græðisúruætt (Plantaginaceae)
Tegund (Species)
Selgresi (Plantago lanceolata)