Njóli (Rumex longifolius)

Útbreiðsla

Hann hefur snemma flutst inn í landið af mannavöldum, líklega um leið og landið var numið. Finnst yfirleitt ekki til fjalla né langt frá byggð. Inn til landsins fylgir útbreiðsla njólans aðeins byggðinni, og nær hann um 400 m hæð við Víðiker og Svartárkot í Bárðardal. Hæst er hann skráður við Laugafellsskála norðan Hofsjökuls í rúmum 700 m.

Almennt

Hann er áburðarfrekur og hleypur oft ofvöxtur í hann þar sem áburðarríkt ræktarland er yfirgefið og verður stundum einráður í fyrrverandi kartöflugörðum. Í óræktuðu landi er hann mun fyrirferðarminni en þar sem landið er auðugt af köfnunarefni, hann er þá ljósgrænni og oft með rauða stöngla, ekki ágengur.

Búsvæði

Slæðingur umhverfis bæi, í ræktuðu landi, á ruslahaugum, meðfram vegum, getur myndað þéttar breiður í landi sem fellur í órækt. Verður nokkuð fyrirferðarmikill og ágengur þar sem landið er áburðarríkt. Hann hefur sums staðar breiðst nokkuð út í óræktað land og kann þá best við sig í votlendi, flæðum og árfarvegum. Þar er hann mun fyrirferðarminni en þar sem landið er auðugt af köfnunarefni, ljósgrænni og oft með rauða stöngla, ekki ágengur, og sómir sér í raun nokkuð vel innan um villtan votlendisgróður.

Lýsing

Fjölær, stórvaxin jurt (50–130 sm) með stór, löng blöð og langar, grænar blómskipanir. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stöngullinn sívalur, gáraður og allgildur (5–15 mm). Blöðin stilkuð, lensulaga með sterklegum, gildum miðstreng og slímkenndu slíðri við blaðfótinn. Stofnblöðin 15–30 sm löng og 5–10 sm breið, hrokkin til jaðranna.

Blóm

Blómin mörg og lítil, græn eða lítið eitt rauðleit í samsettum, klasaleitum blómskipunum ofan til á stönglinum og í blaðöxlum neðar. Blómin leggjuð, tvíkynja eða sum einkynja í sambýli. Blómhlífin sexblaða. Innri blómhlífarblöðin þrjú lykja þétt um aldinið og verða stór (4-6 mm), tennt, brún, sporbaugótt eða hjartalaga með aldrinum. Þrjú ytri blómhlífarblöðin eru mjórri og styttri (1-2 mm), græn með rauðum jaðri og beygjast niður með aldrinum. Fræflar sex. Ein þrístrend fræva með þrjú marggreind, hvítleit eða rauð fræni.

Greining

Njólinn er auðþekktur frá öðrum íslenskum plöntum, enda er engin af súruætt nálægt því eins stórvaxin og hann. Hins vegar er erfitt að þekkja hann frá sumum erlendum tegundum, sem stöku sinnum sjást hér á landi, eins og t.d. hrukkunjóli (Rumex crispus). Hann þekkist varla frá njóla nema þegar hann er í blómi, á áberandi brjóskvörtum sem myndast á innri blómhlífarblöðunum. 

Afbrigði

Erlendis er þekkt að njóli og hrukkunjóli myndi kynblendinga.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Súruætt (Polygonaceae)
Tegund (Species)
Njóli (Rumex longifolius)