Maríulykill (Primula stricta)

Útbreiðsla

Afar sjaldgæf jurt, aðeins fundin á nokkru svæði innan til í Eyjafirði á svæðinu frá Kristnesi og Þverá út að Hjalteyri. Hann er aðeins á láglendi, hæst í 230 m hæð í Vaðlaheiði.

Búsvæði

Rök flög, einkum þar sem jarðvegur er grunnur yfir klöppum, deigir árbakkar.

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (10–20 sm) með blöðin í stofnhvirfingu og nokkur bleik blóm á enda blaðlaus stilksins. Blómgast í maí–júní.

Blað

Stöngullinn blaðlaus, óloðinn. Blöðin í stofnhvirfingu, spaðalaga, 1–2 sm á lengd, dragast jafnt saman í stilk (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin standa nokkur saman í sveip efst á ógreindum stöngli. Krónupípan 7–8 mm á lengd með útbreiddum kraga og fimm bleikrauðum krónuflipum með skerðingu í endann. Bikarinn 4–5 mm á lengd, klofinn fjórðung niður, grænleitur með dökkum, fíngerðum dröfnum ofan til. Fræflar fimm, styttri en krónupípan. Ein fræva. Blómleggirnir 5–10 mm á lengd með stuttum, mjóum stoðblöðum við grunninn (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Hýðisaldin með mörgum, ljósbrúnum fræjum við þroskun.

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandHeimsválisti
EN LC

Forsendur flokkunar

Maríulykill er þekktur frá nokkrum fundarstöðum við Eyjafjörð en tegundinni virðist hafa hnignað á síðustu árum.

Viðmið IUCN: B1; B2b(iv)

B1. Útbreiðsla áætluð minni en 100 km2.
B2. Dvalar- eða vaxtarsvæði áætlað minna en 10 km2 og mat bendir til:
b. Stofn hefur sífellt minnkað samkvæmt athugun, ályktun eða áætlun eftirfarandi;
(iv) fjölda fundarstaða eða undirstofna.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Maríulykill er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Maríulykill er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Maríulykilsætt (Primulaceae)
Tegund (Species)
Maríulykill (Primula stricta)