Blóðkollur (Sanguisorba officinalis)

Útbreiðsla

Fremur sjaldséð jurt sem hefur takmarkaða útbreiðslu, aðeins villtur á Suðvesturlandi og á Snæfellsnesi annars aðeins sem slæðingur í þéttbýli.

Almennt

Ættkvíslarheitið Sanguisorba er dregið af latnesku orðunum sanguis sem þýðir blóð og sorbere sem þýðir að drekka í sig (Lid og Lid 2005). Nafnið blóðdrekkur var notað á þessa tegund á fyrri hluta 19. aldar en nú hefur nafnið blóðkollur nær alveg tekið yfir en það er líklega frá Stefáni Stefánssyni grasafræðingi komið (Jóhann Pálsson 1999). Tegundarheitið officinalis er vísun í að jurtin hafi lækningamátt (Lid og Lid 2005).

Nytjar

Blóðkollur hefur verið mikið notaður til lækninga í gegnum aldirnar en eins hafa blöð og sprotar verið nýttir til matar. Hann þykir gefa góða raun gegn bólgum og særindum, sérstaklega í meltingarvegi, munni og legggöngum. Hann er barkandi og gott er að leggja hann á sár til að stöðva blæðingar og blóðkollsduft er gott að sjúga upp í nefið til að stöðva blóðnasir (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Blóðkollur inniheldur m.a. barksýrur, ilmolíur, flavona og C-vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Grónar brekkur og bollar, í giljum og utan í börðum.

Lýsing

Meðalhá planta (15–50 sm) með stakfjöðruðum blöðum og rauðum blómkolli. Blómgast í júlí.

Blað

Plönturnar standa vel aðgreindar og eru aldrei mjög miklar að umfangi. Stöngullinn gáróttur, blöðin stakfjöðruð, oft með þrem til sex smáblaðpörum, smáblöðin hárlaus, ljósblágræn á neðra borði, dökkgræn ofan, grófsagtennt, snubbótt í endann, stuttstilkuð með hjartalaga grunni (Hörður Kristinsson 2010, Jóhann Pálsson 1999).

Blóm

Blómin standa mörg saman í þéttum hnappi, 1–3 sm löngum og 1 sm breiðum á stöngulendanum, yfirsætin. Krónublöðin dumbrauð, oddbaugótt, 3–4 mm löng. Bikarblöðin ljósbrún. Fræflar fjórir. Ein fræva með bognum stíl (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Kann að minna á höskoll en auðvelt er að greina tegundirnar í sundur á blöðunum. Smáblöð á jarðstöngli blóðkollsins eru á 4–10 mm löngum stilk en aðeins á 1–4 mm löngum stilk á höskolli, auk þess eru þessi smáblöð blóðkollsins lítið eitt hjartalaga en svo gott sem þver á höskolli. Höskollur hefur blágrænni laufblöð, vex í þéttum breiðum og myndar aflengri blómkolla.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. 1998. Íslenskar lækningjurtir: söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útg.). Íslensk náttúra IV. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Jóhann Pálsson. 1999. Blóðkollur Sanguisorba officinalis L. og Höskollur Sanguisorba alpina Bunge (Rosaceae) á Íslandi. Náttúrufræðingurinn, 68 (3-4) 163-173.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Blóðkollur (Sanguisorba officinalis)