Blóðmura (Potentilla erecta)

Útbreiðsla

Mjög sjaldgæf á Íslandi, hefur aðeins fundist á einum stað villt, við Kirkjuból í Reykjarfirði nyrðri á Ströndum. Líklegt er að hún hafi verið flutt þangað af manna völdum fyrr á öldum. Annars staðar hefur hún aðeins fundist sem nýlegur, óstöðugur slæðingur.

Almennt

Einnig nefnd blóðrót.

Búsvæði

Vex við jarðhita.

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (10–30 sm) með granna upprétta stöngla og gul, fjórdeild blóm.

Blað

Þykkur jarðstöngull. Laufblöðin eru stilklaus, þrískipt, smáblöðin gróftennt eða sepótt að framan, strýhærð, axlablöðin stór og gróftennt framan. Þau koma oft fyrir eins og hluti af blöðkunni sem þá sýnist fimmskipt. Blaðhvirfing visnar oftast þegar kemur undir blómgun. Stöngullinn er uppréttur, sívalur, grannur og strýhærður (Hörður Kristinsson, Lid og Lid 2005).

Blóm

Blómin eru fjórdeild, 12-15 mm í þvermál, krónublöðin eru gul, oft með dökkgulum bletti neðst við nöglina, aðeins lengri en bikarblöðin sem eru þríhyrnd, oddmjó. Utanbikarflipar eru lensulaga, allur bikarinn hærður. Allmargir fræflar og frævur.

Greining

Hefur svipuð fimmskipt blöð og gullmura en þekkist á fjórdeildum, gulum blómum með utanbikar.

Verndun

Blóðmura er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda. Hún er þó ekki á válista.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Blóðmura (Potentilla erecta)