Glitrós (Rosa dumalis)

Útbreiðsla

Afar sjaldgæf. Fannst lengi vel ekki blómguð á Íslandi nema þar sem hún var ræktuð í görðum en finnst núna á einum stað, í Kvískerjum í Öræfum. Ekkert er hægt að segja um hversu lengi rósin hefur vaxið þarna, né hvenær hún hafi borist, enda virðist hún hafa vaxið þarna á litlu svæði án mikilla breytinga í 250 ár.

Búsvæði

Kjarrlendi og gróðursælar hlíðar (Hörður Kristinsson 2010). Aðeins villt í brattri brekku uppi í hlíð innan um birkikjarr.

Lýsing

Meðalhár rósarunni (50–150 sm) með fjöðruð blöð og bleik blóm. Hún hefur ekki fundist í blóma á Íslandi nema í ræktun.

Blað

Blöðin eru stakfjöðruð, með tveim til þrem hliðarpörum. Smáblöðin hvasstennt, egglaga eða sporbaugótt, oftast með greinilegum oddi að framan, 2–3,5 sm löng og 1,5–2,5 sm breið. Axlablöðin löng, samgróin stilknum langt upp eftir (1–1,5 sm). Stöngullinn með gisnum, sterklegum, klóbognum þyrnum. Greinarnar slútandi (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin eru bleik, 4–6 sm í þvermál, krónublöðin öfughjartalaga, 2–3 sm löng, bikarblöðin um 1,5 sm, oddlöng, útsveigð (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist helst þyrnirós en glitrós hefur bleik blóm, gisnari þyrna, stærri axlablöð og oddmjórri blaðtennur.

Válistaflokkun

CR (tegund í bráðri hættu)

ÍslandHeimsválisti
CR NE

Forsendur flokkunar

Glitrós er einungis fundin á einum stað á suðaustanverðu landinu og er stofninn mjög lítill, færri en 50 fullþroska einstaklingar.

Viðmið IUCN: D

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Glitrós er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Válisti 1996: Glitrós er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Verndun

Glitrós er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Glitrós (Rosa dumalis)