Alaskaösp (Populus trichocarpa)

Útbreiðsla

Upprunalega frá N-Ameríku (Blamey og Grey-Wilson 1992). Er innflutt trjátegund sem kom fyrst til landsins um miðja síðustu öld. Strax um 1990 varð þess vart að hún er farin að sá sér frjálslega. Ný kynslóð af sjálfsánum öspum er sums staðar búnar að ná fullri hæð.

Búsvæði

Hún fær einkum set á röskuðum svæðum, t.d. meðfram nýgerðum vegum og víðar.

Lýsing

Allt að 20 m hátt tré með sporbaugótt blöð.

Blað

Börkur alaskaaspar er grábrúnn, hrjúfur og sprunginn. Yngri sprotar rauðbrúnir, hárlausir, og ársprotar eru grænleitir, hærðir, brum límugt. Blöðin eru fagurgræn, egglaga og odddregin eða hjartalaga, heilrend, gljáandi á efra borði en lítið eitt ljósari neðan, æðar á neðra borði þétthærðar, 8-18 sm löng en 5-12 sm breið, oft límkennd og sitja á gulgrænum eða bleikleitum, 2-5 sm löngum stilk. Brum og ung blöð ilmandi (Hörður Kristinsson, Blamey og Grey-Wilson 1992). Ákaflega hraðvaxta og er víða á landinu orðin töluvert yfir 20 metrar á hæð og getur myndað feiknar svera boli. Hún myndar einnig mikið af rótarskotum, sem jafnan koma upp í nokkurra metra fjarlægð frá móðurplöntunni.

Blóm

Öspin blómstrar rétt í byrjun laufgunar, í apríl eða maí eftir árferði. Karlblómin eru í 5-8 sm löngum reklum, frjóhirslur í fyrstu rauðar en síðar gulbrúnar til fjólubláar. Kvenblómin eru í 10-20 sm löngum reklum sem oft losna af eftir fræfall.

Aldin

Fræin örsmá, svífa langar leiðir á dúnmjúkum ullarhnoðrum og sáðplöntur koma oft upp í nokkur hundruð metra eða kílómetra fjarlægð frá móðurplöntunum. 

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Blamey, M. og C. Grey-Wilson. 1992. Myndskreytt flóra Íslands og Norður-Evrópu. Óskar Ingimarsson og Jón O. Edwald íslenskuðu. Skjaldborg hf., Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Víðisætt (Salicaceae)
Tegund (Species)
Alaskaösp (Populus trichocarpa)