Alaskavíðir (Salix alaxensis)

Útbreiðsla

Var fluttur hingað til lands um 1970 og hefur verið að breiðast hratt út (Ásgeir Svanbergsson 1989). Hefur mikið hefur verið notaður í skjólbelti víða um land og hefur þann kost í skjólbeltum að vaxa hratt. Þar sem bæði kynin ná saman, þroskar hann vel fræ og sáir sér nokkuð út um hagann.

Búsvæði

Alaskavíðir hefur helst náð fótfestu utan ræktar, þar sem gróður er hvorki þéttur né hávaxinn (Ásgeir Svanbergsson 1989).

Lýsing

Fljótvaxta, hávaxinn runni (1–8 m hár) með sporbaugótt til öfugegglaga, djúpgræn blöð með ljósu, lóhærðu neðra borði. Reklarnir aflangir og uppréttir.

Blað

Uppréttir runnar eða lágvaxin tré, 1–8 m há með uppréttar eða uppsveigðar greinar. Greinarnar eru grábrúnar eða brúnar, ársprotarnir oft langir, gildvaxnir, oft 5-7 mm þykkir, kafloðnir gráum ullhárum sem eru mjög áberandi á veturna, en verða hárlausir á blettum og eru þá rauðleitir undir lónni. Bolirnir verða ákaflega valtir og detta út af með aldrinum þegar þeir eru orðnir stórir. Axlablöð eru áberandi, striklaga til mjólensulaga, 1-2 sm löng, fínsagtennt með kirtilhárum á jöðrum, lóhærð, falla ýmist af eða ekki. Laufblöð frekar þétt saman við enda sprotanna, sporbaugótt til öfugegglaga, odddregin eða ydd, 7-15 sm á lengd, 2-4 sm á breidd, djúpgræn og hárlaus nema á miðstrengnum á efra borði, silfruð og þéttlóhærð á neðra borði, heilrend eða svo gott sem, blaðstilkur allt að 1 sm langur, vanalega styttri. Laufblöðin sitja á stuttu, breiðfættu, gulgrænu slíðri (Hörður Kristinsson, Wiggins og Thomas 1962).

Blóm

Blómin einkynja og eru í aflöngum, 3-7 sm löngum uppréttum reklum sem eru á stuttum, gildum, mjúklóhærðum blómskipunarlegg. Rekilhlífarnar grænar neðst, rauðleitar ofar en svartar í endann, með löngum, hvítum hárum. Fræflar tveir, sjaldan þrír. Frævur 4–5 mm langar við blómgun, þétt silkihærðar með hvítum til fölryðlitum hárum sem verða 6–8 mm löng er plantan er komin í aldin. Stílar mjóir, ljósgrænir, 2–3,5 langir, frænin mjó, 1–1,5 mm löng, dökkrauð, fjórklofin (Hörður Kristinsson, Wiggins og Thomas 1962).

Aldin

Fræin eru búin löngum svifhárum (6–8 mm) (Wiggins og Thomas 1962).

Greining

Alaskavíðirinn er mun hávaxnari og beinvaxnari heldur en bæði grávíðir og loðvíðir. Einkennandi fyrir ársprota alaskavíðis á veturna og vorin er hversu mjúkhærðir og gildvaxnir þeir eru, þannig þekkist hann vel frá öðrum víðitegundum á veturna.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Ásgeir Svanbergsson. 1989. Tré og runnar: handbók ræktunarmannsins. Íslensk náttúra I. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Wiggins, I.L. og J.H. Thomas.1962. A Flora of the Alaskan Arctic Slope (4. útg.). University of Toronto Press, Kanada.

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Víðisætt (Salicaceae)
Tegund (Species)
Alaskavíðir (Salix alaxensis)