Fjallavíðir (Salix arctica)

Útbreiðsla

Mjög algengur um allt land, nema síst á láglendi sunnan- og vestanlands. Hann er ein af algengustu jurtum til fjalla og á hálendinu. Á hálendinu er hann einna lífseigastur allra runna og stendur lengur af sér uppblástur og harðviðri en nokkur annar. Fer hæst í 1100 m yfir sjávarmáli, nema á jarðhitasvæði í Öskju þar sem hann vex í 1200 m hæð.

Almennt

Einnig kallaður grávíðir.

Búsvæði

Mólendi, hlíðar og giljadrög, einkum til fjalla (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Lágvaxinn runni (15–60 sm) með hærðum blöðum, uppréttum reklum með dökkrauð fræni.

Blað

Fjallavíðirinn er ætíð lágvaxinn runni, oft jarðlægur. Rís oftast ekki meir en 10-20 (50) sm frá jörðu, þótt láréttar greinar geti orðið töluvert lengri. Ársprotar eru hærðir, en eldri greinar með brúnum, gljáandi, hárlausum berki. Stofninn og eldri greinar geta orðið allgildar (1-3 sm) á gömlum runnum, grábrúnar og gljáalausar. Laufblöðin eru öfugegglaga, oddbaugótt eða egglaga, oftast um 2-4 (6) sm á lengd og 1-2 (3) sm á breidd, græn eða ofurlítið fjólublámenguð eða með dekkri æðum, töluvert loðin einkum á jöðrunum og á neðra borði, ýmist hærð eða nær hárlaus á efra borði. 

Blóm

Blómin eru einkynja í sérbýli, mörg saman í 2-6 sm löngum reklum. Rekilhlífarnar eru langhærðar, rauðsvartar í endann. Karlblómin eru með tvo fræfla í hverju blómi, með dökkrauðar frjóhirslur á löngum stilk, sem síðar verða gular. Kvenblómin bera eina, kafloðna frævu með stuttum stíl og dökkrauðu, tvisvar tvíklofnu (fjórklofnu) fræni. 

Aldin

Þroskuð aldinin eru kafloðin, oftast grá eða grábrún, en stundum gul eða rauðgul, 7-10 mm á lengd, opnast með því að klofna í tvennt ofan frá langleiðina niður, og birtast þá löng, hvít svifhár fræjanna.

Greining

Aldin kvenblóma fjallvíðis eru gráloðin og þekkist víðirinn á því vel frá loðvíði sem hefur snoðin aldin, þótt hann sé að öðru leyti loðnari en fjallavíðirinn. Fjallavíðirinn er afar breytileg tegund, bæði að því er varðar blaðlögun, hæringu, gerð rekla og lit þeirra. Afbrigðileg eintök hans getur oft verið erfitt að greina frá loðvíði. Dæmigerð eintök hafa þynnri, minna loðin og mjórri blöð en loðvíðir, og fjallavíðirinn er alltaf meir eða minna jarðlægur. Ef plantan er blómguð er öruggasta einkennið þó frævan og aldinið sem eru kafloðin á fjallavíði, en hárlaus á loðvíði. Snemma vors er rauði liturinn á frænum og frjóhirslum fjallavíðisins gott einkenni. Þegar plantan er blómlaus, þekkist hann best frá loðvíði á mjög smáum eða engum axlablöðum, ef blaðgerðin er ekki ótvíræð. Unga sprota getur stundum verið erfitt að greina frá lágvöxnum gulvíði.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Víðisætt (Salicaceae)
Tegund (Species)
Fjallavíðir (Salix arctica)