Flokkun og dreifing lifandi tegunda af ættkvíslinni Lenticulina á Íslandsmiðum

Út er komin grein í vísindatímaritinu Micropaleontology eftir Guðmund Guðmundsson flokkunarfræðing hjá Náttúrufræðistofnun.
Greinin fjallar um endurskoðun á flokkunarkerfi sjö stórvaxinna og lítt þekktra götungategunda (Foraminifera) af ættkvíslinni Lenticulina, auk þess sem útbreiðsla þeirra á Íslandsmiðum er skráð með tilliti til hitastigs, dýpis og seltu. Tegundir þessar eru tiltölulega stórvaxnar, en þær stærstu geta orðið um og yfir 1 cm í þvermál. Þekking á Lenticulina-tegundum á botni Norður-Atlantshafs byggist aðallega á rannsóknum frá seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. en síðan þá hafa þær næstum algjörlega orðið útundan í síðari tíma rannsóknum á setlögum frá nútíma.
Götungar voru greindir úr 879 sýnum úr verkefninu Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE). Sýna var aflað með tækjum sem hvert um sig var dregið um 600 m eftir botninum. Sjö tegundir af Lenticulina komu fyrir í 238 sýnum, sem samanstóðu af 1239 eintökum. Lýsingar á tegundum hafa verið endurskoðaðar og smásjármyndir teknar í hárri upplausn.
Lenticulina-tegundir eru ekki í köldum djúpsjó (-1°C) norðan við Grænlands-Skotlands hrygginn, en eru nokkuð algengar í hlýrri sjó á landgrunninu norðanverðu. Algengastar eru þær suður og vestur af landinu, allt frá grunnslóð og líklegast á mun meira dýpi en 3000 m, þar sem dýpstu sýnatökustöðvarnar eru. Útbreiðslu tegundanna er skipt í fernt: (1) L. novangliae og L. torrida finnast á breiðu dýptarbili og þar með breytilegu hitastigi og seltu; (2) L. glabrata og L. gibba eru algengastar þar sem hlýsjávar gætir á landgrunninu norðan við Ísland; (3) L. atlantica og L. dorbignii eru tiltölulega grunnt suður og vestur af landinu; og (4) útbreiðsla L. occidentalis takmarkast við djúpslóð sunnan við Grænlands-Skotlands hrygginn. Afar ólíklegt er að fleiri tegundir Lenticulina uppgötvist á Íslandsmiðum með þeim aðferðum sem voru notaðar.
Nánari upplýsingar er að finna í greininni:
Gudmundsson, G. 2025. Taxonomy and distribution of living species of the genus Lenticulina in Icelandic waters. Micropaleontology 71(1): 1–30. https://doi.org/10.47894/mpal.71.1.01