Skip to main content
search

Ný tegund skjaldlúsar fundin á Íslandi

Nýlega birtist vísindagrein í tímaritinu ZooKeys sem fjallar um rannsókn á skjaldlúsum á Íslandi, unnin í samstarfi við ungverska vísindamenn. Í greininni er nýrri tegund lýst í fyrsta sinn.

Tegundin sem um ræðir hefur hlotið nafnið Trionymus icelandensis og fannst hún á blávingli (Festica vivipara) og vallarsveifgrasi (Poa pratensis) í Vík í Mýrdal. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund er greind og lýst formlega. Auk þess bættust sex aðrar tegundir við þekktan fjölda skjaldlúsa á Íslandi. Ein tegund af ættinni Coccidae, Coccus hesperidum, fannst í gróðurhúsi og fimm tegundir af ættinni Diaspididae fundust á innfluttum ávöxtum.

Heildarfjöldi þekktra skjaldlúsategunda hér á landi er þar með kominn í fimmtán. Af þeim eru tíu tegundir taldar til viðurkennds tegundalista fyrir Ísland, þar af sjö sem finnast utandyra og þrjár sem eru bundnar við húsnæði. Fimm tegundir hafa einungis fundist á innfluttum ávöxtum og eru líklega ekki orðnar landlægar.

Greinin er öllum aðgengileg á netinu:

Gerő, K., Alfreðsson, M. og Szita, E. (2025). New data on the scale insect (Hemiptera, Coccomorpha) fauna of Iceland, with description of a new species. ZooKeys 1236, 119–128. https://doi.org/10.3897/zookeys.1236.150789