Refir og fuglar á Hornströndum sumarið 2025

Árleg vettvangsferð Náttúrufræðistofnunar til Hornstranda fór fram dagana 23. júní til 12. júlí 2025. Markmið ferðarinnar var að meta ábúð og gotstærð refa, fylgjast með atferli þeirra við greni í Hornbjargi og einnig með viðveru og hegðun fólks við sömu greni. Þá var framkvæmd fuglatalning á hefðbundnum sniðum í Hornvík. Ferðin skiptist í tvö tímabil og stýrði Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur leiðangrinum.
Í fyrri hluta ferðarinnar, 23.–30. júní, dvaldi átta manna hópur í tjaldbúðum að Horni. Þá voru öll þekkt greni í austanverðri Hornvík skoðuð og metið hvort þau væru í notkun. Ábúð var metin út frá því hvort grendýr væru á staðnum með yrðlinga. Ef svo var, var gotstærðin skráð, en ef ekki sáust yrðlingar var lagt mat á fjölda fullorðinna dýra á nærliggjandi óðali. Fjögur greni voru vöktuð sérstaklega með tilliti til heimsókna bæði refa og manna.
Seinni hluta ferðarinnar, 30. júní til 12. júlí, dvaldi leiðangursstjóri einn í Höfn í Hornvík og sinnti áfram vöktun á svæði sem nær frá Álfsfelli í Hlöðuvík að Hornbjargsvita, þar með talin grenin í austanverðri Hornvík sem voru athuguð í fyrri vikunni. Þá voru fuglar taldir á hefðbundnu sniði í Hornvík.
Alls var 41 greni á 20 óðulum skoðað og reyndust 12 þeirra í ábúð. Meðalfjöldi yrðlinga var 4,2 (2–5 í hverju goti), sem telst í lægri kantinum miðað við fyrri ár á svæðinu. Það sama á við um fjöldi gota eða ábúðaþéttleika. Sérstaka athygli vakti að í Hornbjargi fundust yrðlingar einungis á þremur óðulum, þar sem oft hafa verið allt að fimm greni í ábúð. Á einu þeirra hurfu tveir yrðlingar á milli mælinga. Líklega hafa þeir drepist í júní því að í júlí fundust engin ummerki um þá og foreldrarnir hættir að sinna greni sínu.
Í Hælavíkurbjargi var ástand refa mun betra. Í Hælavík virtust hins vegar nokkur grendýr hafa orðið fyrir truflun af mannavöldum því þau voru stressuð og virtust hafa orðið fyrir áfalli. Dýrin þar eru ekki eins vön mannaferðum og dýrin í Hornvík, þar sem mun fleira ferðafólk er og vinsælar gönguleiðir um stíga í bjarginu. Mikilvægt er að minna á að greni eru friðuð á grenjatíma. Þá skiptir miklu máli að ferðafólk sýni dýrunum tillitssemi og valdi ekki óþarfa truflun. Þegar yrðlingar eru á greni þurfa dýrin ró og næði til að sinna afkvæmum sínum, afla fæðu og viðhalda óðulum.

Á fjórum óðulum höfðu grenpör kosið að koma sér fyrir í mannvirkjum til að ala upp afkvæmi sín, þrátt fyrir að náttúruleg greni væru til staðar. Um var að ræða tvö hús og stórt tjald í notkun, auk gamalla húsatófta sem eru löngu komnar í eyði. Einnig sáust grendýr með yrðlinga í gömlum rekaviðarstafla.
Á þremur óðulum voru þrjú fullorðin dýr, grenpar og geldlæða, sem líklega er ársgömul dóttir þeirra. Auk þess komu hlaupadýr (gelddýr sem ekki eru að tímgast) víða við sögu, jafnvel innan óðala. Öll fullorðin dýr virtust hraustleg, farin úr vetrarfeldi og í góðu ástandi. Það, að mikið hafi verið um hlaupadýr en lítið um yrðlinga, er í sjálfu sér athyglisvert og gefur tilefni til nánari skoðunar á aðstæðum á svæðinu, einkum með tilliti til fæðuskilyrða og veðurfars.
Fæðuleifar við greni benda til þess að fæða refa sé breytileg eftir staðsetningu. Við greni í bjarginu voru leifar af ritu, svartfuglum og fýl áberandi en á láglendi nálægt sjónum voru fiskhausar og fuglahræ algeng. Sérstaklega bar mikið á stórum, vélskornum steinbítshausum og þótti óvenjulegt hve margir þeirra fundust. Einnig sást refur bera heim ferskt stykki úr sel. Engin ummerki fundust um sjórekinn sel eða selveiðar á svæðinu en mikil báta- og skipaumferð er fyrir Horn og telja má líklegt að bæði selstykkið og fiskhausarnir séu frákast frá skipi sem hafi verið á ferð þar í grennd.


Fuglalíf var fjölbreytt og líflegt, þó að sumar tegundir hafi líklega tapað eggjum eða ungum í hretinu sem gekk yfir í júní. Spörfuglum virðist hafa gengið vel, meðal annars voru steindeplar, sólskríkjur, maríuerlur og þúfutittlingar með stálpaða unga í byrjun júlí. Hrafnar voru einnig með unga á hefðbundnum óðulum og kjóar héldu sig á varpsvæðum sínum þó þeir virtust seinir á ferð til varps. Álftir sáust víða án unga og aðeins tvö pör með unga voru í Hornvík, þar sem þau eru oftast fjögur. Lómar, himbrimar og óðinshanar voru ungalausir á sjó í byrjun júlí en æðarkollur voru enn að birtast með unga með mikinn stærðar og aldursmun á milli elstu og yngstu unganna. Heiðlóur, spóar, sandlóur og lóuþrælar héldu sig á hefðbundnum svæðum en varp þeirra virtist eitthvað seinna á ferð en hjá spörfuglunum. Óvenjumargir stelkar sáust í Hornvík og víðar, jafnvel uppi í björgum, auk hrossagauka, sem hefur fjölgað undanfarin ár.


Bjargfuglar virtust í góðu yfirlæti og voru með unga í byrjun júlí, svartfuglar með fiðraðar pysjur og ritur með dúnaða unga. Ekki sást í fýlsunga en þeir fullorðnu lágu á hreiðrum og vonir standa til að þeir komi upp ungum síðar í sumar. Svartbakar voru með unga á hefðbundnum varpstöðum í Tröllakambi og Kirfi og varp virðist einnig hafa gengið vel hjá hvítmáfum. Hlutfall svartbaka er nú um þriðjungur miðað við hvítmáfa en fyrir um 20 árum voru tegundirnar álíka algengar. Tveir sílamáfar og nokkrir silfurmáfar sáust á svæðinu en ekki með unga eða í varpi. Skúmar, sem hafa haldið til í Hornvík frá árinu 2009, sáust ekki að þessu sinni.



Áður en haldið var til Hornstranda kom leiðangurshópurinn við í Melrakkasetri Íslands í Súðavík, þar sem fagnað var 15 ára afmæli setursins. Af því tilefni hélt hópurinn nokkur fræðsluerindi um rannsóknir og vöktun íslenska refastofnsins fyrir gesti setursins.

Þátttakendur í vettvangsferðinni voru:
Ester Rut Unnsteinsdóttir, leiðangursstjóri
þau Anna Bára Másdóttir
Ben Simmons
Elodie Ferreira
Hannah Moody
Ingvi Stígsson
Simon Steensig
Sóley Hölludóttir
William Moody.
Siglt var frá Ísafirði til Hornvíkur og aftur til baka með skipum Borea Adventures.