Surtseyjarleiðangur Náttúrufræðistofnunar 2025

Árlegur rannsókna- og vöktunarleiðangur Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar fór fram dagana 12.–18. júlí. Að þessu sinni tóku bæði líffræðingar og jarðfræðingar þátt, líkt og gert er annað hvert ár. Líffræðingarnir dvöldu á eynni dagana 12.–15. júlí og tóku jarðfræðingar við 15.–18. júlí. Leiðangurinn var skipulagður í samstarfi við Surtseyjarfélagið og Landhelgisgæslan og Björgunarfélag Vestmannaeyja tryggðu öruggan flutning hópanna til og frá eynni.
Í leiðangrinum tóku þátt sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Landbúnaðarháskólanum, Landi og skógi, Heilbrigðisstofnun Bretlandseyja (UK Health Security Agency), Hellarannsóknafélagi Íslands og Náttúruverndarstofnun. Auk þeirra voru tveir listamenn með í för við gagnaöflun. Dvalið var í rannsóknaskála Surtseyjarfélagsins, Pálsbæ. Veðrið var breytilegt og skiptust á dagar með hægviðri, hvössum vindi og sól eða þungskýjuðum himni með þoku og talsverðri úrkomu. Leiðangursfólk fékk því að kynnast öllu því helsta sem íslensk veðrátta hefur upp á að bjóða.
Rannsóknaleiðangur líffræðinga
Líffræðihópurinn kom til Surtseyjar með þyrlu Landhelgisgæslunnar þann 12. júlí. Í för voru auk starfsfólks Náttúrufræðistofnunar sérfræðingar frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Landi og skógi og Heilbrigðisstofnun Bretlandseyja, auk svæðissérfræðings Náttúruverndarstofnunar. Einnig var í hópnum listamaður sem vann að rannsókn á niðurbroti tanksins á norðurtanganum. Árleg vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt auk þess að unnar voru fleiri rannsóknir á lífríki eyjunnar.
Gróður
Gróður var vel kominn á veg um miðjan júlí eftir hlýjan maímánuð, grös voru farin að þroska fræ og komin voru ber á krækilyng. Í gróðri sáust nýleg ummerki um sandfok sem líklega má rekja til hvassviðris af norðri í byrjun júní sem stóð yfir í nokkurn tíma.
Alls fundust 59 tegundir æðplantna á lífi en engin ný tegund bættist við, fjórða árið í röð. Þó fundust þrjár tegundir á nýjum stöðum. Vallarfoxgras fannst í grennd við veðurstöðina. Tegundin hafði horfið af sínum þekkta fundarstað árið 2023 en hún fannst fyrst í Surtsey árið 1994. Hóffífill fannst í apalhrauni neðan Pálsbæjar, þar sem tvær plöntur uxu. Áður hafði tegundin fundist árið 2019 nærri máfavarpinu en hvarf þaðan og fannst ári síðar á nýjum stað við gíginn Surt. Friggjargras fannst í máfavarpinu á sunnanverðri eynni, þar sem fimm plöntur uxu, ekki langt frá eldri fundarstað. Tegundin fannst fyrst á eynni árið 2003.


Gera má ráð fyrir að einhverjar tegundir hverfi af eyjunni á næstu árum, þar á meðal stinnastör. Hún fannst fyrst árið 2015 og hefur að nokkru leyti breiðst út frá upphaflegum fundarstað en virðist nú eiga undir högg að sækja. Stinnastörin tapar samkeppninni við grastegundir sem eru í mikilli sókn og haldist aðstæður óbreyttar má gera ráð fyrir að hún hverfi af eyjunni innan örfárra ára.
Áhersla var lögð á að kortleggja útbreiðslu krækilyngs á eynni en verkið var seinlegt vegna mikils fjölda plantna. Krækilyng fannst fyrst á Surtsey árið 1993, eða fyrir 32 árum, og voru fyrstu fundarstaðir í Surtungi og á sunnanverðri eynni, meðal annars í grennd við veðurstöðina. Þar vex krækilyng nú mjög þétt og voru sumar plönturnar, líklega þær elstu, yfir 3 m að þvermáli. Ber voru á mörgum krækilyngsplöntum, þó yfirleitt í litlu magni, enda virtust fuglar hafa gætt sér á þeim flestum. Plönturnar báru greinileg merki um nokkurn atgang við berjatínsluna og mátti sjá berjabláan máfaskít til sönnunar um hverjir höfðu staðið að verki.




Smádýr
Smádýrarannsóknir fóru fram með hefðbundnum hætti. Fallgildrur voru settar niður í gróðurmælireiti og tjaldgildra í máfavarpið. Einnig var leitað að lundamítlum í hreiðrum fýla og máfa en þeir fundust ekki. Hins vegar fundust fjórir skógarmítlar í gróðri í máfavarpinu, eitt karldýr og þrjár gyðlur sem líklega hafa borist með spörfuglum sem verpa á eynni.
Eyjarana var safnað af skarfakáli til frekari rannsókna. Óvenju mikið var um blaðlús og blómsveifu. Folafluga fannst í annað sinn (tegundin fannst fyrst 2022) og átta þistilfiðrildi sáust nærast á melablómi og blóðbergi. Fjöldi annarra tegunda fannst í miklu magni, þar á meðal túnfeti, grasvefari, reyrslæða, engjatíta og langfætlur. Aftur á móti fundust hvorki dvergfætla né mýrasnigill, sem sáust í fyrsta sinn sumarið áður. Hvort eitthvað forvitnilegt leynist í aflanum sem safnað var með fall- og tjaldgildrum mun koma í ljós við frekari greiningu.
Sérfræðingur frá Landi og skógi kannaði ummerki um beitarskemmdir á gróðri af völdum smádýra og gæsa. Í heildina voru skemmtir litlar en í miðju máfavarpinu sáust merki um skemmdir á melgresi. Einnig sáust töluverðar skemmdir á skarfakáli sem rekja má til eyjarana. Blaðlúsum var safnað af ýmsum plöntutegundum og mun það auðvelda tegundagreiningar þeirra blaðlúsa sem fundist hafa í Surtsey síðustu ár.



Fuglar
Alls urpu tólf fuglategundir á Surtsey þetta sumarið, sem telst með meira móti. Til samanburðar hefur mest verið staðfest varp fjórtán tegunda á einu sumri, árið 2009. Óvenjulegt tækifæri gafst til að kanna fuglalíf í lok maímánaðar þegar farið var í eyna vegna viðhalds á rannsóknaskálanum. Með í för var fuglafræðingur frá Náttúrufræðistofnun sem framkvæmdi talningar á mófuglum, skoðaði fuglalíf um alla eyna og mat viðkomu í máfavarpinu.
Í maí var máfavarp í fullum gangi og ungar ýmist klaktir eða í hreiðrum. Við mat á viðkomu að kvöldi töldust 167 svartbakar, 98 sílamáfar og 45 silfurmáfar í máfavarpinu. Einnig voru svartbakar með varp á tanganum og með hraunbrúninni austanmegin á eynni. Í júlí töldust 15 svartbakshreiður á tanganum.
Árleg hreiðurtalning við vöktunarreiti í máfavarpinu í júlí benti til fækkunar í varpi máfa samanborið við fyrri ár.


Fýll var í varpi um alla eyna, í björgum, uppi á eynni og í hrauntaumum í móbergsbunkum. Í júlí voru fuglarnir ýmist með unga í hreiðri eða enn að liggja á eggjum. Heldur virtist meira um fýl en síðustu ár sem samræmdist niðurstöðum hreiðurtalninga við vöktunarreitina.
Teistur sáust aðeins á sjó við Gústavsberg í maí en í júlí sáust þær bera síli í björg, sem bendir til varps. Einnig sást stakur lundi undir bjargbrún norðan apalhrauns en ekki tókst að staðfesta varp.

Grágæs var á hreiðri í miðju máfavarpinu í maí með sex egg undir sér. Í júlí sást ekki til gæsarinnar en greinileg ummerki eftir hana voru enn sýnileg í varpinu. Hrafnapar með tvo meðalstóra unga var í laupi í suðvestanverðum Surtungi í maí. Í júlí sáust fjórir hrafnar á flugi við gíginn og virðast ungarnir tveir sem sáust í maí því hafa komist á legg. Æðarpar sást á sundi við tangann og þótti líklegt að það hefði orpið þótt hreiður hafi ekki fundist þá. Í júlí fundust hins vegar tvö hreiður með dúni í á tanganum sem staðfestir varp æðarfugls í ár.
Af smærri spörfuglum var fjöldi maríuerlupara metinn 5–10, þúfutittlingspara um 10 og snjótittlingspara þrjú, samkvæmt mati í maí. Það er heldur færri snjótittlingspör en oft áður. Talning í júlí benti til þess að bæði maríuerlur og þúfutittlingar væru heldur færri þá en í maí.
Heiðlóupar hélt til við veðurstöðina í júlí og sýndi varpatferli. Hreiðrið fannst loks í melgresisþúfu og í því voru fjögur egg. Þetta er í annað sinn sem heiðlóa verpur á eynni, hitt skiptið var árið 2009.



Vistkerfisvirkni og jarðvegur
Vísindamenn Landbúnaðarháskóla Íslands unnu að árlegum vistkerfisrannsóknum á Surtsey, auk áframhaldandi rannsókna á jarðvegsmyndum. Gerðar voru mælingar á kolefnisjöfnuði og vistkerfisöndun (GPP, NEE, ER) í öllum mælireitum. Einnig voru mældir gróðurstuðlar (vegation indexes: NDVI, PRI og CCI) og tepokar settir niður til að mæla niðurbrotshraða í jarðvegi.
Í framhaldi af sniðlýsingum sumarið 2024 voru jarðvegssýni tekin við 22 fasta vöktunarreiti. Sýni voru tekin úr hverju jarðvegslagi fyrir sig, bæði til greininga á eðlis- og efnaeiginleikum moldarinnar en ekki síður til greininga á leirsteindum.
Þörungar í fjörum
Sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun rannsökuðu tegundafjölbreytni þörunga í fjörum Surtseyjar á þremur mismunandi sniðum, frá efstu þörungabeltum niður að sjávarborði við stórstraumsfjöru. Alls fundust 10–12 tegundir og voru allar sömu og komu fram í sams konar úttekt árið 2021.
Mikið rof og hreyfing á hnullungum í fjörum Surtseyjar takmarkar búsetuskilyrði og setur lífríkinu þar ákveðnar hömlur.


Rannsóknaleiðangur jarðfræðinga
Vaktaskipti í eynni urðu þann 15. júlí þegar Björgunarfélag Vestmannaeyja flutti hóp jarðfræðinga til Surtseyjar og ferjaði líffræðinga til Heimaeyjar. Í jarðfræðileiðangrinum voru tveir jarðfræðingar, einn gróðurvistfræðingur og einn mælingaverkfræðingur frá Náttúrufræðistofnun, einn jarðfræðingur frá Náttúrufræðistofnun og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík, tveir hellarannsóknamenn frá Hellarannsóknafélagi Íslands, einn landfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands og ein listakona. Svæðissérfræðingur Náttúruverndarstofnunar dvaldi áfram á eynni og vann með hópnum að ýmsum verkefnum.
Jarðhitamælingar
Jarðhiti í Surtsey hefur verið mældur reglulega frá árinu 1969. Mældur er yfirborðshiti í sprungum í Austur- og Vesturbunka . Jarðhitamælingarnar gengu vel og tókst að mæla allar helstu sprungur í báðum bunkum af talsverðri nákvæmni. Nokkur svæði, sem hafa verið kaldari undanfarin ár, reyndust nú heitari en áður. Hæsti hiti mældist 97,8°C, austarlega í Vesturbunka, líkt og síðustu ár. Í Austurbunka mældist hiti enn vel yfir 80°C á nokkrum stöðum og var hæstur næst vitahúsinu, 91,3°C.


Hellarannsóknir
Sex hellar voru kannaðir í leiðangrinum og gerðar þrívíddarmyndir af þeim öllum. Hellirinn SUR-01 er austast á eynni, var áður mældur 2023 en var nú endurmældur frá niðurfalli að sjó. Hann mælist nú um fjórum metrum styttri en áður og til viðbótar eru 2,6 metrar með sprungum í berginu. Talið er líklegt að sá hluti brotni niður í næsta stórsjó. Hellarnir SUR-04, SUR-05, SUR-06, SUR-07 og SUR-10, eru allir í tengslum við vestasta gíginn, Surtung. Í fyrsta sinn var sigið í SUR-05, sem reyndist 19,5 metra djúpur. Þrívíddarmæling var gerð á göngum milli hellanna SUR-05 og SUR-10. Þau liggja á um 15 metra dýpi og eru afar þröng en lofthæð nær þó allt að 10 metrum á köflum. Í SUR-10 fannst afhellir með miklum útfellingum sem glitra líkt og jólasnjór. Hætt var við könnun á helli sem liggur um gíginn Stromp, SUR-08, þar sem fýlsungi var í hreiðri í hellisopinu.
Myndmælingar
Alls voru settir niður 13 viðmiðunarpunktar og mældir með GNSS-tækni. Veður gerði drónaflugi nokkuð erfitt fyrir en þegar skyggni og vindur leyfðu var flogið og eyjan mynduð með góðum árangri. Þrátt fyrir talsverðan vind stóð en Matrice 300-dróninn sig vel í krefjandi aðstæðum. Teknar voru um 1800 myndir fyrir réttmyndatöku, auk skámynda af eyjunni og Surtungi. Þá voru teknar myndir af steingerðu fótsporunum og tankinum á norðurtanganum.
Jarðmyndanir
Tangi Surtseyjar tekur sífelldum breytingum og hin síðari ár hefur hann bæði mjókkað og styst. Nyrsti oddi hans er nú orðinn að sandrifi sem sjór flæðir yfir. Malarkambur úr hnullungagrjóti, allt að fjögurra metra hár, ver að hluta innri hluta tangans, en sjór hefur gengið yfir kambinn að vestanverðu og sandur kaffært fjörugróður.
Á vestanverðum tanganum mátti enn og aftur sjá hraunið sem rann úr gígnum Strompi í janúar 1967, en það hraun hefur lengst af verið hulið strandseti. Líkur eru á að tanginn muni halda áfram að rýrna á komandi árum og eigi skamman líftíma í núverandi mynd.
Mikið vatns- og vindrof er á óharðnaðri gjósku sem liggur utan í Austurbunka. Þar hafa myndast djúpir skorningar eða gil þar sem sjá má inn í móbergskjarna eyjarinnar.
Niðurföll undir Vesturbunka, á mörkum móbergs og hraunbreiðunnar norðan við Surtung, sem fyrst vöktu eftirtekt í leiðangri jarðfræðinga sumarið 2019, eru enn sýnileg. Þau voru þau mynduð og hnitmerkt í leiðangrinum.



Hitamælingar í borholum
Í maí voru gerðar hitamælingar í borholum SE-01 og SE-03. Hæsti hiti mældist 133°C í SE-03 og um 120°C í SE-01. Báðar holurnar eru farnar að grynnast vegna hruns og útfellinga. Hola SE-01 var boruð 1979 og var þá 181 metra djúp en mælirinn komst ekki neðar en 168 metra og í holu SE-03 frá 2017 sem var skáboruð í samtals 354 metra fór hann ekki neðar en 308,5 metra.
Viðhald á veðurstöð
Veðurstöðin í Surtsey fékk yfirhalningu í maíleiðangri. Hitamælir var kvarðaður (skekkja +0,2°C) og einnig rakaskynjari (skekkja 10%), auk þess sem skipt var um skráningartæki og loftvog. Sólgeislunarmælir var tekinn niður vegna bilunar. Ný, hreyfanleg myndavél var sett upp ofarlega á mastrinu og stillt á máfavarpið. Í júlí var svo skipt um símtæki í stöðinni.
Önnur verkefni
Tvær listakonur tóku þátt í leiðöngrunum. Anna Líndal safnaði efni fyrir rannsókn á niðurbroti tanksins á tanganum og Þorgerður Ólafsdóttir ljósmyndaði eyna með 360° vél, skráði gönguferðir og tíndi rusl af tanganum. Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, svæðissérfræðingur Náttúruverndarstofnunar, stóð vaktina með báðum rannsóknahópum í júlí og aðstoðaði við hin ýmsu verkefni á meðan leiðöngrunum stóð. Jafnframt stýrði Ragnheiður í maíleiðangri hreinsun og flutningi á rusli sem safnast hefur í og við Pálsbæ síðustu ár.
Háhyrningar sáust oft við strendur Surtseyjar á meðan leiðöngrum stóð og selir voru við tangann. Þá lónuðu skemmtiferðaskip og smærri bátar oft á tíðum við eyna.



Þátttakendur í leiðöngrum 2025
Líffræðileiðangur (12.–15. júlí):
Olga Kolbrún Vilmundardóttir, Náttúrufræðistofnun, leiðangursstjóri
Járngerður Grétarsdóttir, Náttúrufræðistofnun
Matthías S. Alfreðsson, Náttúrufræðistofnun
Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands
Lilja Gunnarsdóttir, Hafrannsóknastofnun
Karl Gunnarsson, Hafrannsóknastofnun
Brynja Hrafnkelsdóttir, Landi og skógi
Jolyon Medlock, UK Health Security Agency
Anna Líndal
Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Náttúruverndarstofnun
Jarðfræðileiðangur (15.–18. júlí):
Birgir V. Óskarsson, Náttúrufræðistofnun, leiðangursstjóri
Guðmundur Valsson, Náttúrufræðistofnun
Lovísa Ásbjörnsdóttir, Náttúrufræðistofnun
María Helga Guðmundsdóttir, Náttúrufræðistofnun og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík
Pawel Wasowicz, Náttúrufræðistofnun
Susanne C. Möckel, Landbúnaðarháskóla Íslands
Guðni Gunnarsson, Hellarannsóknafélagi Íslands
Jón Atli Magnússon, Hellarannsóknafélagi Íslands
Þorgerður Ólafsdóttir
Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Náttúruverndarstofnun
Hákon Halldórsson, Veðurstofu Íslands
Viðhaldsleiðangur og vöktun (29.–31. maí):
Olga Kolbrún Vilmundardóttir, Náttúrufræðistofnun, leiðangursstjóri
Svenja Auhage, Náttúrufræðistofnun
Þorvaldur Þór Björnsson, Náttúrufræðistofnun
Sigurður Sveinn Jónsson, ÍSOR
Jóhannes Konráð Andrésson, Veðurstofu Íslands
Gunnar Viðar Gunnarsson, Landbúnaðarháskóla Íslands
Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, Náttúruverndarstofnun
Inga Dóra Hrólfsdóttir, Náttúruverndarstofnun
Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Náttúruverndarstofnun