Uppfærður válisti fugla á Íslandi

Ný útgáfa válista fugla á Íslandi hefur litið dagsins ljós. Válistar eru mikilvæg verkfæri til að fylgjast með stofnþróun dýra- og plöntutegunda og meta hvort tegundir séu í hættu á útrýmingu. Síðast var válisti fugla endurskoðaður árið 2018.
Við gerð válista er horft til breytinga á stofnstærð miðað við bestu fáanlegu gögn á fyrirfram ákveðnu viðmiðunartímabili sem nemur þremur kynslóðalengdum hjá hverri tegund. Hjá langlífum tegundum eins og lunda, haferni og fýl getur þetta tímabil verið 50–80 ár. Hjá skammlífari tegundum, svo sem mörgum spörfuglum, er það töluvert styttra eða um 7–8 ár en þó er aldrei miðað við minna en 10 ár.
Af 91 tegund sem metin var nú teljast 43 í hættu, samanborið við 41 í síðustu útgáfu válistans.
Í hópi vaðfugla urðu miklar breytingar. Fjórar tegundir sem áður töldust ekki í hættu eru nú flokkaðar „í nokkurri hættu” (VU). Þetta eru lóuþræll, stelkur, heiðlóa og spói. Talningar sýna að þessum fuglum hefur farið fækkandi víðsvegar um landið á undanförnum árum.

Nokkrar andategundir hafa nú verið flokkaðar „í yfirvofandi hættu” (NT). Þær eru rauðhöfðaönd, straumönd, toppönd, urtönd og skúfönd. Sumar þessara tegunda eru staðfuglar og endurspeglast stofnþróun í vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar en hjá farfuglum er stuðst við talningar á varptíma, einkum úr Mývatnssveit.
Af örfáum ránfuglum sem finnast hér á landi eru flestir taldir í hættu eða yfirvofandi hættu. Haförn telst enn í hættu vegna lítillar stofnstærðar, þó hún hafi vaxið jafnt og þétt á síðari árum. Fálka hefur hins vegar fækkað hratt á síðustu árum samkvæmt vetrarfuglatalningum, rannsóknum á ábúð sem og gögnum frá eBird. Talið er að fuglaflensa spili þar stórt hlutverk.
Ekki færðust allar tegundir í hærri hættuflokk. Sumar hafa færst í lægri flokk vegna þess að hægt hefur á fækkun. Þar má sem dæmi nefna teistu, toppskarf, langvíu og stuttnefju sem teljast nú í minni útrýmingarhættu en árið 2018.
Fjórar tegundir eru nú flokkaðar „í bráðri hættu" (CR). Þetta eru fjöruspói, lundi, skúmur og svartbakur, sem er nýr á válista. Fjöruspói er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi sem hefur átt undir högg að sækja í Evrópu. Lundum, skúmum og svartbökum hefur öllum fækkað um meira en 80% yfir viðmiðunartímabilið og teljast þeir því í mikilli útrýmingarhættu hér á landi.
