Sterkur rjúpnastofn en fækkun fálka heldur áfram

Rannsóknir á tengslum fálka og rjúpu á Norðausturlandi hafa staðið frá 1981. Rjúpnatalningar í vor sýndu sterkan varpstofn, og gildið var það þriðja hæsta frá upphafi rannsókna. Viðkoma rjúpunnar var hins vegar léleg en í takti við þá þróun sem verið hefur frá aldarmótum.
Tíðarfar á ungatíma ræður miklu um varpárangur rjúpu og neikvæð þróun þessa þáttar endurspeglar mögulega breytingar á veðurfari. Vöktun fálka sýnir að varpstofninn hefur ekki verið minni frá upphafi rannsóknanna vorið 1981. Viðkoma fálkanna, miðað við meðalfjölda unga á óðal í ábúð, var í meðallagi þrátt fyrir gnægð rjúpna og góða tíða á varptíma. Fálkum hefur fækkað nær samfellt frá 2019 og fækkunin nemur nú 51% eða að jafnaði um 11% á ári. Stofnstærðargildi voru innan eðlilegra marka allt til ársins 2022 en það sem síðan hefur gerst er án fordæma.
Líklegasta skýringin á stofnhruni fálka eru sýkingar vegna fuglainflúensu. Stærstur hluti þeirra fálka sem fundist hafa dauðir eða deyjandi frá og með 2021 eða 59% hafa verið sýktir af fuglainflúensu.