Dagur íslenskrar náttúru

Ár hvert, þann 16. september, er haldið upp á Dag íslenskrar náttúru. Í ár beinir Náttúrufræðistofnun sjónum að verkefninu Peatland LIFEline.is. Þar standa sjö stofnanir að samstarfi við Evrópusambandið, með Landbúnaðarháskóla Íslands í fararbroddi. Aðrir samstarfsaðilar eru Land og skógur, Fuglavernd, Náttúruverndarstofnun, Hafrannsóknastofnun og Royal Society for the Protection of Birds (RSPB) í Bretlandi.

Markmið verkefnisins er að endurheimta votlendi og styðja við líffræðilegan fjölbreytileika. Framræst eða rofið mýrlendi hefur minna gildi fyrir líffræðilegan fjölbreytileika sem bitnar hvað mest á fuglategundum sem reiða sig á búsvæðið, til dæmis rauðbrystingi, jaðrakan og stelki. Með endurheimt þessara röskuðu svæða skapast betri búsvæði og aukinn fjölbreytileiki í flóru, fánu og fungu.

Verkefnið er fjölþætt og skipt í tíu verkhluta. Unnið verður að endurheimt votlendis á þremur rannsóknarsvæðum og markmiðið er ekki einungis vel heppnuð framkvæmd heldur einnig að tryggja betra aðgengi að gögnum. Þannig verður hægt að byggja ákvarðanir um endurheimt votlendis á vísindalegum grunni.
Verkefnið hófst formlega 1. september síðastliðinn og stendur yfir til loka febrúar 2031.
Gleðilegan Dag íslenskrar náttúru!
