Stórt Evrópuverkefni um vernd og endurheimt votlendis hafið

Náttúrufræðistofnun tekur þátt í nýju Evrópuverkefni, Peatland LIFEline.is, sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Verkefnið er unnið í víðtæku samstarfi sjö aðila: Landbúnaðarháskóla Íslands, Land og skógar, Náttúrufræðistofnunar, Fuglaverndar, Hafrannsóknastofnunar, Náttúruverndarstofnunar og bresku fuglaverndarsamtakanna Royal Society for the Protection of Birds. Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.
Verkefnið hófst formlega 1. september 2025 og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóður Evrópusambandsins til 75% fjárhæðarinnar. Peatland LIFEline.is er því eitt umfangsmesta verkefni sinnar tegundar sem ráðist hefur verið í hér á landi.
Í Peatland LIFEline.is er lögð áhersla á að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi Íslands, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Sérstaklega er horft til vistgerðarinnar starungsmýravistar sem hefur mjög hátt verndargildi og fuglategundanna jaðrakans, stelks og lóuþræls sem teljast lykilvísar um heilbrigði votlendis.
Votlendi á Íslandi er um magt sérstakt í samanburði við votlendi annars staðar í Evrópu, meðal annars vegna ungs berggrunns, áfoks og áhrifa eldvirkni. Það gegnir lykilhlutverki fyrir fuglalíf og stofnar nokkurra tegunda byggja afkomu sína að verulegu leyti á þessum svæðum. Verkefninu er ætlað að styrkja yfirsýn og auka þekkingu á votlendissvæðum landsins, ástandi þeirra og helstu áskorunum við endurheimt. Jafnframt er lögð áhersla á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.
Náttúrufræðistofnun tekur þátt í öllum verkþáttum verkefnisins, en leggur sérstaka áherslu á þrjá þeirra. Í öðrum verkþætti mun stofnunin vinna að þróun gagnagrunna og aðferða til að safna vistfræðilegum gögnum sem gefa góða mynd af ástandi votlendis. Í sjötta verkþætti verða sérfræðingar stofnunarinnar á vettvangi við sýnatökur og vöktun á áhrifum aðgerða, meðal annars með fuglatalningum, mati á búsvæðum og jarðvegssýnum. Í níunda verkþætti verður lögð áhersla á að tryggja framhald verkefnisins með því að sýna hvernig vinnan fór fram og hvernig ferlið á að halda áfram.
Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn á Hvanneyri 22.–24. september 2025 með þátttöku um 50 fulltrúa samstarfsaðila. Á fundinum voru ræddar áherslur og skipulag verkefnisins til næstu ára. Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, ávarpaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi verkefnisins sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins.