Skip to main content
search

Vel heppnuð Vísindavaka að baki

Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands stóðu saman að sýningu á Vísindavöku Rannís laugardaginn 27. september. Margir heimsóttu básinn og þar var mikil stemning allan daginn.

Sýningin var tileinkuð vatninu þar sem það var skoðað frá fjölbreyttum sjónarhornum. Unga kynslóðin hafði sérstaklega gaman að því að fá sér tímabundin tattoo með myndum af smáum lífverum úr náttúru Íslands, ásamt því að skoða örsmáa kuðunga og aðra náttúrugripi. Einnig vakti forvitni að skoða lifandi rykmýslirfur, fullorðið rykmý og örvistkerfi í gegnum stækkunargler og víðsjá. Á gólfinu var jafnframt stór motta með áprentuðu korti af Íslandi sem vakti mikla athygli, bæði barna og fullorðinna. Eldri gestir sýndu áhuga á Kortaglugga Íslands og spjölluðu við sérfræðinga um kort og kortagögn stofnunarinnar.

Báðar stofnanirnar eru þátttakendur í Icewater-verkefninu sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er það unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Icewater verkefnið er styrkt af LIFE-áætluninni.