Vísindavaka 2025

Á morgun, laugardaginn 27. september, verður Vísindavaka 2025 haldin í Laugardalshöllinni kl. 12:00–17:00. Í ár eru liðin 20 ár frá því að Vísindavaka var fyrst haldin.
Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands standa saman að sýningu um vatnið þar sem það er skoðað frá fjölbreyttum sjónarhornum. Gestir geta meðal annars kynnst Kortaglugga Íslands, nýrri kortasjá á vegum Náttúrufræðistofnunar, og kynnt verður úrval úr safnkosti Náttúruminjasafns Íslands er tengist vatni. Börn og fullorðnir fá tækifæri til að rannsaka, skoða, snerta og lita, auk þess sem í boði verður að fá tattoo.
Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn Íslands eru þátttakendur í Icewater sem er stórt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er það unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Icewater verkefnið er styrkt af LIFE-áætluninni og er þetta jafnframt einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB.