Alþjóðlegur dagur jarðbreytileikans

Alþjóðlegur dagur jarðbreytileikans (Geodiversity Day) hefur verið haldinn árlega 6. október síðan árið 2021. Þema dagsins í ár er „Ein jörð, margar sögur“ (One Earth, Many Stories) og vísar til þess að landslag, steinar og steingervingar geyma hver sína sögu. Saga jarðar spannar meira en fjóra milljarða ára og á þeim tíma hefur hún gengið í gegnum margvíslegar umhverfisbreytingar og náttúruhamfarir sem lesa má úr í jarðlögum. Aukin þekking á jarðbreytileika og jarðsögu gerir okkur betur í stakk búin til að skilja náttúruna og bregðast við náttúruvá samtímans.
Jarðbreytileiki nær yfir allar jarðminjar, svo sem berg, steindir og steingervinga, en einnig jarðveg, grunnvatn, landform og virk ferli eins og strandrof, skriðuföll og jarðskjálfta. Náttúrulegt landslag endurspeglar jarðbreytileika og án hans væri enginn lífbreytileiki. Jarðbreytileiki hefur einnig hagnýta þýðingu því úr honum sækjum við flest allt sem tilheyrir okkar daglega lífi, til dæmis byggingarefni, málma, vatn og orkugjafa.
Á vefnum Geodiversity Day má finna fróðleik og dæmi um hvernig jarðbreytileikanum er fagnað með viðburðum um allan heim.
Gleðilegan dag jarðbreytileikans!
Jarðbreytileiki – hljóði félagi lífbreytileikans
Hvers vegna er mikilvægt að hafa alþjóðlegan dag jarðbreytileikans?
