Heiðursverðlaun Líffræðifélags Íslands 2025

Árni Einarsson, vistfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, hlaut þann 9. október síðastliðinn heiðursverðlaun Líffræðifélags Íslands fyrir farsælt ævistarf. Verðlaunin voru afhent af Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var dagana 9.–11. október. Við sama tilefni hlaut Hrönn Egilsdóttir heiðursverðlaun fyrir góðan árangur í upphafi ferils.
Árni hóf störf við rannsóknir á Mývatni fyrir um 40 árum, við þáverandi Rannsóknarstöð Líffræðistofnunar Háskóla Íslands, um svipað leyti og hann lauk doktorsnámi í dýravistfræði frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi. Hann varð fljótt einn helsti sérfræðingur landsins í vistfræði vatna og gegndi lykilhlutverki við að viðhalda og byggja áfram upp þá lífríkisvöktun sem hafði hafist um tíu árum fyrr. Síðar var rannsóknarstöðin gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun, Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn, og varð Árni þá forstöðumaður. Hann gegndi því starfi til ársins 2024 þegar stöðin sameinaðist Náttúrufræðistofnun.
Rannsóknir Árna og samstarfsmanna hans hafa veitt dýrmæta innsýn í samspil lífvera og vistfræðilegra þátta í einstöku vistkerfi Mývatns. Með reglubundinni vöktun fugla, fiska, vatnaskordýra, þörunga og eðlis- og efnafræðilegra þátta hefur skapast eitt umfangsmesta gagnasafn sinnar tegundar á Íslandi. Fjöldi vísindagreina hefur verið byggður á þessum rannsóknum, sem hafa vakið athygli víða erlendis.
Árni hefur jafnframt verið ötull málsvari verndunar Mývatns- og Laxársvæðisins og komið á framfæri ábendingum og rökstuddum sjónarmiðum um hvernig ganga skuli um þessa viðkvæmu og verðmætu náttúruperlu. Þá hefur hann verið frumkvöðull í rannsóknum á fornlíffræði ferskvatnsvistkerfa hér á landi og nýtt borkjarna úr stöðuvötnum til að greina breytingar á lífríki þeirra langt aftur í tímann. Undanfarin ár hefur hann einnig sinnt rannsóknum á fornum mannvistarleifum í landslagi, einkum fornum görðum frá þjóðveldisöld sem eru meðal elstu mannvirkja sem enn eru sýnileg hér á landi og varpa nýju ljósi á landnýtingu og byggðarsögu Íslands.
Hrönn Egilsdóttir, sjávarlíffræðingur og sviðstjóri umhverfis og vöktunar hjá Hafrannsóknarstofnun, hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í upphafi vísindaferils síns. Hún hefur unnið ötullega að rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga, einkum súrnunar sjávar, á vistkerfi hafsins og viðkvæma lífveruhópa á borð við kórala og aðrar kalkmyndandi tegundir. Niðurstöður rannsókna hennar hafa verið birtar í fjölmörgum virtum vísindaritum og vakið athygli bæði hér á landi og erlendis. Hrönn hefur jafnframt lagt áherslu á að miðla þessari mikilvægu þekkingu til fjölmiðla og almennings. Hún hefur tekið þátt í grunnrannsóknum á botnvistkerfum íslenskra hafsvæða og komið að miðlun upplýsinga um sérstöðu þeirra og verndargildi í stefnumótandi samhengi, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Náttúrufræðistofnun óskar Árna Einarssyni og Hrönn Egilsdóttur innilega til hamingju með heiðursverðlaun Líffræðifélags Íslands 2025.