Ný rannsókn á Surtsey sýnir að fuglar eru helsti drifkraftur landnáms plantna

Ný vísindagrein í Ecology Letters varpar nýju ljósi á hvernig plöntur nema nýtt land. Rannsóknin sýnir að fuglar báru meirihluta fræja þeirra plantna sem hafa numið Surtsey frá því eyjan reis úr hafi árið 1963 og gengur þar með þvert á hefðbundnar kenningar líffræðinnar um að lögun fræja og aðlögun að dreifingu ráði útbreiðslu plantna.
Niðurstöðurnar sýna að flestar þeirra 78 æðplantna sem hafa fest rætur á Surtsey hafa engin einkenni sem auðvelda dreifingu með vindi eða vatni. Þvert á væntingar reyndust fuglar, einkum mávar, gæsir og vaðfuglar, gegna lykilhlutverki í dreifingu fræja, sem þeir innbyrtu annars staðar og fluttu í meltingarvegi sínum og losuðu síðar á eynni. Með þessum hætti hafa fuglar flutt fjölbreyttar tegundir plantna til Surtseyjar og lagt grunn að myndun vistkerfisins.
Niðurstöður rannsóknarinnar kollvarpa hefðbundnum hugmyndum um landnám plantna. Þær sýna að til að skilja hvernig líf dreifist og bregst við breytingum í náttúrunni þarf að líta til samspils plantna og dýra. Hingað til hafa plöntur með vængjuð fræ eða safarík ber taldar hafa forskot í líffræðilegu kapphlaupi við að nema nýtt land en nú hefur verið sýnt fram á að dreifing plantna ræðst ekki einvörðungu að lögun og gerð fræja og ávaxta, heldur einnig af virkri þátttöku dýra í flutningi þeirra.

Rannsóknin hefur einnig þýðingu fyrir skilning á áhrifum loftslagsbreytinga. Með hlýnandi loftslagi munu farleiðir fugla breytast og þar með einnig flutningur fræja milli svæða. Þannig geta fuglar gengt lykilhlutverki í því hvernig plöntur flytja sig til og laga sig að nýjum aðstæðum í breytilegum heimi.
Verkefnið undirstrikar að Surtsey er einstök náttúruleg tilraunastofa til að rannsaka grunnferla lífs á jörðinni – hvernig vistkerfi myndast, þróast og bregðast við loftslagsbreytingum. Það kallar á nýja sýn við gerð vistfræðilíkana, þar sem tekið er mið af raunverulegu samspili lífvera í stað þess að treysta eingöngu á eiginleika fræja eða líffræðilegar flokkanir. Með því að endurskoða þessar grundvallarhugmyndir eykur rannsóknin skilning okkar á þróun lífríkisins og eflir getu okkar til að spá fyrir um framtíð náttúrunnar í síbreytilegu loftslagi.
Langtímarannsóknir, eins og þær sem eru stundaðar á Surtsey, eru ómetanlegar fyrir bæði vísindin og samfélagið í heild. Þær gera það mögulegt að sjá ferli sem annars væru ósýnileg – hvernig líf nemur land, þróast og bregst við umhverfisbreytingum. Slíkar rannsóknir eru lykillinn að því að skilja framtíð vistkerfa í heimi þar sem loftslag og landnotkun taka örum breytingum.
Rannsóknarhópurinn samanstendur af vísindamönnum frá Íslandi, Ungverjalandi og Spáni. Rannsóknina leiddu Andy Green frá Estación Biológica de Doñana (CSIC) og Pawel Wasowicz, grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sem jafnframt er fyrsti höfundur greinarinnar.
Wasowicz, P., Lovas-Kiss, Á., Green, A. J. (2025). Putative “dispersal adaptations” do not explain the colonisation of a volcanic island by vascular plants, but birds can. Ecology Letters 28: e70234.