Samkeppni mótar sérhæfingu mítla í fjöðrum fugla

Í nýrri grein sem birtist í vísindaritinu Scientific Reports er fjallað um fjaðurstafamítla af ættinni Syringophilidae, sem eru sníkjudýr í fjöðrum fugla. Þetta eru sérhæfð sníkjudýr og lifa, líkt og nafnið gefur til kynna, inni í fjaðurstöfum fugla. Á hýslinum velja mítlarnir ákveðnar gerðir af fjöðrum til búsetu, oft eru þetta mismunandi gerðir af vængfjöðrum. Í ritgerðinni er sett er fram sú tilgáta að samkeppni mítlategunda um búsvæði hafi leitt til þess að þær hafi þróað sérhæfð sambönd við ákveðnar tegundir hýsla.
Í rannsókninni voru skoðaðir 179 fuglar af 19 tegundum af ættkvíslinni Corvus, en til þeirrar ættkvíslar teljast hrafnar og krákur. Fjaðurstafamítlar fundust í fjöðrum 31 fugls af 11 tegundum. Tvær mítlategundir komu þar við sögu, Syringophiloidus glandarii og Corvisyringophilus krummi, búsvæði þeirra á hýslinum var það sama og báðar fundust eingöngu í vængþökum.
Áhugavert er að hvor mítlategund fyrir sig var sérhæfð á ákveðnar Corvus-tegundir og aðeins í einu tilviki fundust báðar tegundir mítla á sömu hýsiltegund (Corvus albicollis) . Höfundar telja að í þróunarfræðilegum skilningi endurspegli samkeppni á milli mítlategundanna dreifingu þeirra í dag (e. Competitive Exclusion Principle). Þetta rökstyðja þeir með því hvernig mítlategundirnar eru dreifðar innan Corvus-ættkvíslarinnar í takt við innbyrðis skyldleika þessara hýsla, eins hliðstæðu búsvæðavali mítlategundanna tveggja, og sérhæfingu þeirra með tillits til hýslategunda. Mítillinn S. glandarii virðist vera samkeppnishæfari og fannst á níu Corvus-tegundum, en C. krummi á aðeins þremur tegundum. Þessar niðurstöður benda til þess að vistfræðileg tengsl á milli tegunda, líkt og samkeppni, móti dreifingu sníkjudýra og sérhæfingu, og það jafnvel hjá sérhæfðum sníkjudýrum líkt og fjaðurstafamítlum. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingar um þá þætti sem ráða sérhæfingu sníkjudýrs með tilliti til tegundar hýsils og auka skilning okkar á vægi vistfræðilegra og þróunarfræðilegra þátta við mótun tengsla hýsils og sníkjudýrs.
Ólafur K. Nielsen vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun er einn af höfundum greinarinnar.
Greinin er öllum opin á netinu:
Syringophilid mites parasitising the crows and the competitive exclusion principle