Skip to main content
search

Námskeið um vetrarfuglatalningar

Fuglavernd og Náttúrufræðistofnun bjóða upp á ókeypis námskeið um vetrarfuglatalningar. Markmið námskeiðsins er að kynna aðferðafræði og tilgang talninganna, efla nýliðun og tryggja áframhaldandi vöktun fuglastofna. Fjallað verður um helstu fuglategundir sem sjást yfir vetrarmánuðina og gerð nánari grein fyrir þeim tegundum sem erfitt getur reynst að greina á færi.

Vetrarfuglatalningar hafa verið stundaðar hér á landi í um sjötíu ár og gegna mikilvægu hlutverki við að meta fjölda, dreifingu og stofnbreytinnar einstakra tegunda. Allt frá fyrstu talningunni árið 1952 hefur stór hópur fuglaáhugafólks lagt verkefninu lið í sjálfboðavinnu og er nú talið á yfir tvö hundruð svæðum ár hvert. Talningasvæðin eru á láglendi víðsvegar um landið, flest við sjávarsíðuna. Talningar fara yfirleitt fram milli jóla og nýárs eða í byrjun janúar þegar það á við.

Þeir sem vilja taka virkan þátt í vetrarfuglatalningum þurfa að vera líkamlega færir um að ganga nokkra kílómetra í misgóðu vetrarfæri og hafa meðferðis sjónauka. Æskilegt er að þátttakendur hafi grunnþekkingu á fuglum landsins og getu til að greina tegundir úr nokkurri fjarlægð. Gert er ráð fyrir að fólk geti skuldbundið sig til þátttöku í nokkur ár.

Námskeiðið er leitt af sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar í fuglafræði. Á Akureyri kennir Sölvi Rúnar Vignisson en Aldís Erna Pálsdóttir og Borgný Katrínardóttir kenna í Reykjavík. Skráning fer fram hjá Fuglavernd í tölvupósti á fuglavernd@fuglavernd.is

Enn er hægt að skrá sig á námskeið á Akureyri fram til kl. 14 í dag. Skráning á námskeið í Reykjavík stendur yfir til kl. 14 þann 2. desember.

Hvar og hvenær

Akureyri: 27. nóvember kl. 18–21, Borgum, Norðurslóð, 600 Akureyri. Staðnámskeið.

Reykjavík: 2. desember kl. 18–21, Borgarbókasafn – Menningarhús í Úlfarsárdal, Úlfarsbraut 122–124. Stað- og fjarnámskeið.