Skip to main content
search

Norrænt rannsóknarverkefni varpar ljósi á áhrif loftslagsbreytinga á villtar plöntur

Ný rannsókn sem birt er í tímaritinu Environmental Research Communications sýnir að loftslagsbreytingar geta haft veruleg áhrif á útbreiðslu villtra tegunda plantna á Norðurlöndum. Rannsóknin beindist að 84 villtum tegundum sem eru skyldar ræktuðum nytjaplöntum og eru taldar mikilvæg erfðaauðlind fyrir aðlögun nytjaplantna að breyttum vaxtarskilyrðum í hlýnandi loftslagi. 

Markmið rannsóknarinnar var að gera útbreiðslulíkön til að meta áhrif tveggja ólíkra loftslagssviðsmynda á þessar tegundir. Niðurstöðurnar sýna að jafnvel hóflegar loftslagsbreytingar geta haft neikvæð áhrif á margar þeirra. Mikill breytileiki kom fram í viðbrögðum einstakra tegunda en meira en helmingur þeirra gæti misst stóran hluta af hentugum búsvæðum fyrir árið 2100 samkvæmt báðum sviðsmyndum. Válistategundir og hálendistegundir virðast verða fyrir meiri neikvæðum áhrifum en aðrar tegundir. Niðurstöðurnar geta nýtst til  að setja fram tillögur um vernd þeirra, bæði í náttúrunni (in situ) og í fræbönkum (ex situ).

Greinin er hluti af samstarfsverkefninu Conservation and sustainable use of genetic resources in the Nordic countries, sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni. Magnus Göransson plöntulíffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun er einn af höfundum greinarinnar.

Greinin er öllum opin á netinu: 

Fitzgerald, H., Aronsson, M., Göransson, M og Palmé, A. (2025). Climate change modelling predicts dramatic changes in the species distribution of Nordic crop wild relatives. Environmental Research Communications 7, 105022. DOI: 10.1088/2515-7620/ae136c