Skip to main content
search

Ný rannsókn um áhrif loðdýraræktar á erfðafræði heimskautarefa

Í nýútkominni rannsóknargrein sem birt er í tímaritinu Molecular Ecology er fjallað um möguleg áhrif loðdýraræktar á erfðamengi villtra heimskautarefa. Umfangsmikil feldræktun heimskautarefa í refabúum hófst í byrjun 20. aldar og var stunduð í flestum löndum umhverfis norðurskautið, meðal annars á Íslandi. Lítið hefur verið vitað um erfðablöndun búrrefa og villtra stofna heimskautarefa. 

Í rannsókninni var gerður samanburður á erfðamengi villtra og ræktaðra refa til að greina uppruna þeirra og skyldleika. Niðurstöðurnar sýna sterk einkenni nýlegrar skyldleikaræktunar og minnkandi erfðabreytileika í búrrefum en engin slík merki fundust meðal villtra refa. Uppruni refa í búum á Norðurlöndunum var allur rakinn til strandarefa (coastal ecotype). Meirihluti íslenskra refa tilheyra einmitt slíkri strandavistgerð og voru búrrefirnir skyldir þeim. 

Skýringin felst þó ekki í því að búrrefir hafi sloppið út og dreift sér upp á eigin spýtur á Íslandi. Lifandi íslenskir yrðlingar voru í upphafi feldræktar talsvert mikilvæg útflutningsvara og voru seldir til refabúa víða erlendis. Rannsóknin dregur jafnframt fram alvarleg áhrif skyldleikaræktunar á erfðafræðilegan fjölbreytileika og undirstrikar mikilvægi þess að vakta arfgerðir ræktaðra loðdýra og koma í veg fyrir að erfðaefni sloppinna búrrefa blandist villtum stofnum.

Refabú voru síðast starfrækt á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar.

Greinin ber heitið That's So Last Season: Unraveling the Genomic Consequences of Fur Farming in Arctic Foxes (Vulpes lagopus). Meðal höfunda eru Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur og Kristinn Pétur Magnússon sameindaerfðafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun og Snæbjörn Pálsson prófessor við Háskóla Íslands.

Greinin er öllum opin á netinu:

Cockerill, C. A., Chacón-Duque, J. C., Bergfeldt, N., von Seth, J., Björklund, G., Hasselgren, M., Wallén, J., Angerbjörn, A., Fuglei, E., Unnsteinsdottir, E. R., White, P., Samelius, G., Alisauskas, R., Berteaux, D., Flagstad, Ø., Landa, A., Eide, N. E., Olsen, R-A, Bunikis, I., Pálsson, S., Magnússon, K. P., Dalén, L. og Norén, K. (2025). That's So Last Season: Unraveling the Genomic Consequences of Fur Farming in Arctic Foxes (Vulpes lagopus). Molecular Ecology: e70166. DOI: 10.1111/mec.70166