Holdafar rjúpna er nokkuð gott
Holdafar rjúpna nú í haust er nokkuð gott miðað við fyrri ár og svipað því sem mældist árið 2024. Marktækur munur var á milli aldurshópa og kynja, þar sem ungfuglar, sérstaklega ungir kvenfuglar, voru almennt í lakari holdum en fullorðnir fuglar. Þetta sýna mælingar á 266 fuglum sem veiddir voru í Þingeyjarsýslum dagana 24.–28. október.
Fylgst hefur verið með holdafari rjúpna allt frá árinu 2006 og hefur rannsóknin sýnt að holdafar sveiflast mikið milli ára. Fuglarnir 266 sem mældir voru árið 2025 voru aldurs- og kyngreindir og mældir á Húsavík dagana 30. október til 4. nóvember. Tekin voru þrjú stærðarmál (hauslengd, ristarlengd og vænglengd), fuglar vigtaðir og sarpur tæmdur ef innihald var til staðar. Stærðarmálunum er varpað í eitt gildi með höfuðþáttagreiningu (PCA) og með því að bera það saman við þyngd fugls fæst holdastuðull fyrir hvern fugl. Holdastuðullinn, sem er mælikvarði á „hreysti“ rjúpunnar, endurspeglar aðstæður sem fuglarnir hafa upplifað yfir sumarið og fram á haust.
Niðurstöður á tímabilinu 2006–2025 sýna að sams konar munstur og undanfarin ár heldur áfram: holdastuðull breytist milli ára en ferillinn rís og hnígur til skiptis og ferlarnir fyrir ungfugla og fullorðna hækka og lækka í takt. Fullorðnir fuglar eru almennt í betri holdum en þeir ungu og karlfuglar í betri holdum en kvenfuglar. Rjúpur haustsins 2025 voru í betra ástandi en meðaltal áranna 2006–2024.
Rannsóknir fyrri ára hafa einnig sýnt veikt neikvætt samband milli holdastuðuls ungfugla og vetraraffalla, þannig að ef ungfuglar eru í góðum holdum um haustið má búast við litlum afföllum yfir veturinn. Miðað við niðurstöður ársins 2025 má því gera ráð fyrir að afföll rjúpna verði hófleg í vetur.