Listi yfir fléttumyndandi og fléttuháða sveppi á Íslandi kominn út
Nýtt rit í ritröðinni „Fjölrit Náttúrufræðistofnunar“ er komið út. „Sveppatal III: Fléttumyndandi og fléttuháðir sveppir,“ eftir Hörð Kristinsson og Starra Heiðmarsson, er heildstæður listi yfir alla þekkta sveppi á Íslandi sem mynda fléttur eða eru fléttuháðir.
Í ritinu eru skráðar alls 838 tegundir fléttumyndandi sveppa og 144 tegundir fléttuháðra sveppa, auk afbrigða og undirtegunda. Listinn byggir á margra áratuga rannsóknum og söfnun Harðar Kristinssonar (1937–2023) og hefur verið uppfærður jafnt og þétt hjá Náttúrufræðistofnun.
Í Sveppatali III eru teknar saman nýjustu upplýsingar um flokkun, samheiti, undirlag og útbreiðslu tegunda á Íslandi, byggt á safneintökum, ritrýndum heimildum og óbirtum gögnum innlendra og erlendra fléttufræðinga. Sérstök áhersla er lögð á að samræma heiti og flokkunarkerfi við nýjustu útgáfur tékklista Norðurlanda og alþjóðlegar endurskoðanir á flokkun fléttna, þar sem greining með sameindafræðilegum aðferðum hefur á síðustu árum leitt til umtalsverðra breytinga í ættkvíslaskipan og afmörkun tegunda.
Ritið er ætlað fræðimönnum, nemendum og öllum sem vinna með eða hafa áhuga á íslenskri fléttufungu.
Sveppatal III er aðgengilegt á vef stofnunarinnar:
Hörður Kristinsson og Starri Heiðmarsson. (2025). Sveppatal III: fléttumyndandi og fléttuháðir sveppir. Fjölrit
Náttúrufræðistofnunar nr. 60. Náttúrufræðistofnun. DOI: 10.33112/1027-832X.60