Mikilvægt innlegg í umræðu um útbreiðslu stafafuru á Íslandi
Í tímaritinu New Forests var í dag var birt svargrein eftir hóp íslenskra sérfræðinga þar sem fjallað er um vistfræðilegar afleiðingar útbreiðslu stafafuru (Pinus contorta) á Íslandi og brugðist við nýlegri grein eftir Riege o.fl. (2025), sem fjallar um vöxt og kolefnisbindingu tegundarinnar.
Höfundar leggja áherslu á að niðurstöður um hraðan vöxt og lífmassa stafafuru verði ekki túlkaðar án þess að tekið sé tillit til umfangsmikilla upplýsinga um vistfræðileg áhrif tegundarinnar. Rannsóknir sýna að stafafura er þegar farin að breiðast hratt út úr skógræktarlöndum og ryður sér inn í náttúruleg vistkerfi þar sem hún dregur úr fjölbreytileika æðplantna, breytir gróðurfari og hefur áhrif á búsvæði fugla.
Í greininni er jafnframt undirstrikað að íslensk láglendisvistkerfi eru bæði tegundarík og hafa hátt alþjóðlegt verndargildi, sérstaklega fyrir vaðfugla sem reiða sig á opin landsvæði fyrir varp og fæðuöflun. Fram kemur að gróðursetning framandi trjátegunda, þar á meðal stafafuru, geti valdið óafturkræfum breytingum á þessum viðkvæmu vistkerfum.
Höfundarnir benda einnig á reynslu annarra landa, meðal annars frá Nýja-Sjálandi og Noregi, sem sýnir að stjórnun og uppræting útbreiddra framandi barrtrjáa er bæði flókin og kostnaðarsöm til lengri tíma. Því sé mikilvægt að ræða kolefnisbindingu og náttúruvernd í samhengi í stað þess að líta á þessar áskoranir sem aðskilda þætti.
Greinin er unnin af vísindamönnum frá Náttúrufræðistofnun, Náttúrustofu Austurlands, Háskóla Íslands, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, Landi og skógi, Náttúrustofu Vesturlands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrustofu Norðurlands vestra. Hún er aðgengileg öllum á netinu:
Wasowicz, P., Óskarsdóttir, G., Þórhallsdóttir, Þ. E., Gunnarsson, T. G., Nielsen, Ó. K., Svavarsdóttir, K., von Schmalensee, M., Stefánsson, R. A., Barrio, I. C., Heiðmarsson, S. og Jónsdóttir, I. S. (2025). Lodgepole pine in Iceland: biomass gains cannot be interpreted without ecological costs. Response to Riege et al. Nature Forest 57(4). https://doi.org/10.1007/s11056-025-10150-5