Ný rannsókn á gosminjum við Kötlu bendir til tengsla við Vedde-öskulagið
Ný vísindagrein um eldvirkni í Kötlu sýnir að við lok síðasta jökulskeiðs, á yngra drías, urðu þar eldgos sem gætu hafa myndað hið þekkta Vedde-öskulag, sem finnst í jarðlögum víða á Norðurlöndum og í N-Atlantshafi. Öskulagið hefur lengi verið talið tengjast Kötlu en hingað til hafði gossetið ekki fundist í námunda við eldstöðina. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að slíkar minjar hafi nú komið í ljós.
Rannsóknin byggir á berglögum sem koma fram í jökulskerjum í Entu og Klakksfjöllum við jaðar Mýrdalsjökuls, þar sem gosminjar hafa varðveist undir jökli. Þar kemur fram ljósleitt, súrt gosberg sem er sjaldgæft fyrir Kötlu, sem er þekkt fyrir sprengigos með basaltkviku. Gögnin benda til að í þessum tilteknu eldsumbrotum hafi bæði átt sér stað sprengigos og hraungos úr fleiri en einu gosopi undir jökli.
Aldursgreiningar með argon-argon aðferðinni sýna að gosbergið er um 12 þúsund ára gamalt, sem þýðir að eldgosin áttu sér stað á sama tíma og jöklar voru að rýrna í lok síðasta jökulskeiðs. Það styður þá hugmynd að minnkandi jökulþungi hafi getað aukið líkur á eldgosum. Efnasamsetning og aldur goslaganna eru í samræmi við Vedde-öskulagið, sem styrkir þá ályktun að það hafi myndast í gosi í Kötlu.
Greinin birtist í tímaritinu Bulletin of Volcanology og meðal höfunda er Birgir Vilhelm Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.
Cole, R. P., Gudmundsson, M. T., Jicha, B. R., Óskarsson, B. V., Gallagher, C. R., Högnadóttir, T., Guðmundsdóttir, E. R., Larsen, G. og White, J. D. L. Proximal products of ~ 12 ka silicic explosive-effusive eruptions at Katla volcano: implications for volcano-glacier interactions and paleoenvironment. Bulletin of Volcanology 87, 117. https://doi.org/10.1007/s00445-025-01912-2