Ný vísindagrein varpar ljósi á kvikuinnskot í Slaufrudal
Ný vísindagrein varpar ljósi á hvernig bergkvika hefur þrengt sér inn í jarðskorpuna og myndað stórt innskot í grunnum hluta hennar sem er í dag sýnilegt í fjalllendinu norðan Skarðsfjarðar. Rannsóknin byggir á ítarlegum jarðfræðilegum rannsóknum í Slaufrudal á Suðausturlandi og veitir nýja innsýn í myndun kvikuhólfa við flókin spennuskilyrði í jarðskorpunni.
Í greininni er sjónum beint að aflögun í bergi í kringum kvikuinnskot, þar sem bergið ber skýr merki um hvernig kvikan hefur þrengt sér inn og storknað. Slík ummerki varðveitast í harðri og sprunginni jarðskorpu nálægt yfirborði og má nýta þau til að draga ályktanir um hreyfingu kviku og aðstæður við myndun innskotanna.
Rannsóknin sýnir að innskot bergkviku í Slaufrudal hafa myndast við samspil togkrafta og hliðrunar í jarðskorpunni, þar sem jarðlög færast bæði í sundur og til hliðar. Slíkar aðstæður hafa haft áhrif á bæði lögun og uppbyggingu innskotanna og benda niðurstöðurnar til þess að kvikan hafi storknað á mismunandi dýpi í jarðskorpunni.
Niðurstöðurnar leiða í ljós að innskotið í Slaufrudal er ekki af þeirri gerð sem áður var talið, heldur tengist það virkni sniðgengja og spennusviði sem einkennist af bæði tog- og hliðrunarhreyfingum. Þetta kallar á endurskoðun á jarðfræðilegri túlkun svæðisins og bætir við þekkingu á því hvernig kvika flyst, sest og storknar í efsta hluta jarðskorpunnar.
Birgir Vilhelm Óskarsson og Robert A. Askew, jarðfræðingar hjá Náttúrufræðistofnun, eru meðal höfunda greinarinnar:
Orlando Quintela, O., Burchardt, S., Mattsson, T., Óskarsson, B. V., Pitcairn, I., Stevenson, C. T., Askew, R. A. og Gallagher, C. R. (2025). Structural aureoles as proxies for magma emplacement in the brittle crust: Evidence for transtensional pluton formation at Slaufrudalur, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 470, 108506. DOI: 10.1016/j.jvolgeores.2025.108506