Skip to main content
search

Nýtt rit um nýjustu rannsóknir í Surtsey

Surtseyjarfélagið hefur nú gefið út ritið Surtsey Research 16. Í því eru níu greinar eftir 24 höfunda frá sex þjóðlöndum. Þar á meðal eru starfsmenn Náttúrufræðistofnunar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Grasagarðsins.

Surtsey Research birtir greinar á ensku um rannsóknir í Surtsey og um tengd efni frá öðrum eldfjallasvæðum. Liðin eru 60 ár frá því fyrsta ritið kom út. Framan af voru ritin prentuð en síðustu þrjú rit eru aðeins gefin út á rafrænu formi. Meðal efnis í nýja heftinu eru tvær greinar um jarðfræði Surtseyjar sem fjalla um yfirborðsbreytingar í eldfjallinu og landssig sem alls hefur verið um 9 cm frá árinu 2000. Jafnframt er grein um jarðvegsmyndun í eynni og önnur um  veðurfar, en sjálfvirk veðurstöð var sett þar upp árið 2009. Flestar greinarnar í ritinu fjalla um þróun lífríkis í Surtsey á seinni árum. Þar er grein um vöktun á smádýralífi eyjarinnar milli 2007 til 2021, önnur gefur yfirlit yfir landnám sveppategunda til dagsins í dag, þriðja fjallar um fuglalíf í eynni á seinni árum og fjórða um mælingar á blaðgrænu í tengslum við breytileika sem er innan eyjarinnar í framboði á vatni og næringarefnum. Einnig er grein um plöntutegundina tunguskollakamb, sem einungis er þekktur á einum stað í heiminum, við Deildartunguhver í Borgarfirði.

Surtsey Research 16 og einstakar greinar þess má nálgast á vef Surtseyjarfélagsins. Þar má sömuleiðis nálgast eldri útgáfur í ritröðinni.