Skarfastofnar á uppleið
Talningar á skörfum á vestanverðu landinu í maí 2025 sýna að báðir skarfastofnar hafa náð sér á strik eftir mikla fækkun í kjölfar óveðurs sem átti sér stað árið 2023. Alls voru talin 4.727 dílaskarfshreiður og 6.107 toppskarfshreiður, sem jafngildir 23% fjölgun dílaskarfa og 3% fjölgun toppskarfa milli ára.
Árið 2023 varð fáheyrt hrun í hreiðurfjölda beggja tegunda þegar tvær djúpar lægðir gengu yfir landið seint í maí, með hvassri suðvestanátt, áhleðslu og ölduhæð allt að 10 metrum. Mikill fjöldi hreiðra skolaðist burt og heilu byggðirnar hurfu í hafið. Áhrifin voru mest í Faxaflóa og norðanverðum Breiðafirði.
Niðurstöður talninganna í ár benda til þess að báðir skarfastofnarnir séu á uppleið eftir áfallið 2023 og er fjöldi hreiðra nú sambærilegur við árið 2022. Dílaskarfur sýnir afgerandi viðsnúning því fjöldi hreiðra hefur farið úr 2.727 hreiðrum árið 2023 og 3.835 hreiðrum árið 2024 upp í 4.727 hreiður í ár. Stofn toppskarfa tók mikla dýfu árið 2023 og fór úr 6.200 hreiðrum árið á undan í 3.419. Árið í ár var fjöldi talinna hreiðra 6.107 sem meðal hæsta fjölda frá því talningar hófust.
Mest aukning dílaskarfa er í Faxaflóa en toppskarfi fjölgaði mest í norðanverðum Breiðafirði, þar sem áhrif óveðursins voru hvað mest.