13. nóvember 2024. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Gróður og jarðvegur á skeljasandsengjum - Finnst hin fágæta machair-vistgerð á skeljasandsengjum á Íslandi?
Olga Kolbrún Vilmundardóttir landfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindið „Gróður og jarðvegur á skeljasandsengjum - Finnst hin fágæta machair-vistgerð á skeljasandsengjum á Íslandi?“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 13. nóvember 2024 kl. 15:15.
Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu.

Á norðvestanverðum Bretlandseyjum er að finna fágæta vistgerð, svokallaða machair-vistgerð, en talið er að hún finnist einvörðungu á þessu svæði. Sökum fágætis og sérstaks lífríkis er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Tilvist machair-vistgerðar er háð ákveðum umhverfisþáttum en ein meginforsendan er sú að skeljasandur er uppistaðan í jarðveginum. Vísbendingar eru um að aðstæður við skeljasandstrendur á Vesturlandi og Vestfjörðum séu um margt svipaðar machair-svæðum Bretlandseyja.
Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsókna á gróðri og jarðvegi á skeljasandsengjum, sem sagt, mögulegri machair-vistgerð, þar sem meðal annars var kannað hvort gróður og jarðvegur væri frábrugðinn á svæðum þar sem svartur sandur er ríkjandi í jarðvegi. Þá verða niðurstöður bornar saman við lýsingu á machair-vistgerðinni og kannað hvort skilyrði fyrir henni eru uppfyllt á skeljasandsengjum Vesturlands og Vestfjarða.