Skip to main content
search

16. október 2024. Pawel Wasowicz: Frá snjódældum til hverasvæða – erfðafræðileg fjölbreytni og vistfræði burkna af ættkvíslinni Struthiopteris á Íslandi

Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindið „Frá snjódældum til hverasvæða – erfðafræðileg fjölbreytni og vistfræði burkna af ættkvíslinni Struthiopteris á Íslandi“ á Hrafnaþingi 16. október 2024 kl. 15:15. 

Erindið verður flutt á íslensku í fundaraðstöðu starfsstöðvar Náttúrufræðistofnunar að Borgum við Norðurslóð, Akureyri. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu

Á Íslandi eru tvær tegundir sem tilheyra ættkvíslinni Struthiopteris Scop. (Blechnaceae: Blechnoideae), það eru skollakambur, Struthiopteris spicant (L.) Weiss, og tunguskollakambur, Struthiopteris fallax (J. E. Lange) S. Molino, G. Y Galán & Wasowicz. Skollakambur er tegund með víðtæka útbreiðslu í Evrópu (þar á meðal á Íslandi) og beggja vegna Kyrrahafis, á meðan tunguskollakambur er einlend íslensk tegund. 

Tegundirnar tvær eru ekki einungis áberandi ólíkar að útliti heldur lifa þær einnig við ólíkar umhverfisaðstæður. Skollakambur þrífst í köldu fjallaumhverfi þar sem snjóþekja verður mikil á meðan tunguskollakambur er aðlagaður að heitum jarðhitasvæðum. Þessi svipfarslega og vistfræðilega aðgreining býður upp á einstakt tækifæri til að rannsaka smáþróun í burknum. 

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður rannsókna sem unnar hafa verið hjá Náttúrufræðistofnun á síðustu árum þar sem skoðuð var stofnerfðafræði beggja tegunda ásamt umhverfi sem þær lifa við, það er gróðursamsetning, efnasamsetning jarðvegs og veðurfar.