29. janúar 2025. Brynja Hrafnkelsdóttir: Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi og áhrif hitastigs á þær
Brynja Hrafnkelsdóttir sérfræðingur hjá Landi og skógi flytur erindið „Meindýrin og birkið – Innlendar og erlendar skordýrategundir sem lifa á birki á Íslandi og áhrif hitastigs á þær“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 29. janúar 2025 kl. 15:15.
Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu.

Í erindinu verður fjallað um meindýr sem herja á birki á Íslandi, vöktun á útbreiðslu þeirra og hvernig veðurfar hefur hugsanlega áhrif á þær. Hér á landi eru yfir 30 skordýrategundir sem geta lifað á birki og valdið á því mismiklu tjóni. Sumar tegundanna hafa valdið miklum og alvarlegum faröldrum á stórum skógarsvæðum, jafnvel skógardauða. Aðrar valda minni skaða en þó getur langvarandi skordýrabeit líka valdið vaxtartapi, dregið úr fræframleiðslu og veikt trén fyrir öðrum skaðvöldum.
Nokkrar alvarlegar meindýrategundir á birki námu hér land á síðustu öld og í byrjun þessarar. Sumar þeirra valda meiri tjóni hérlendis en víða annarsstaðar, hugsanlega vegna þess að birkið hér er ekki aðlagað að þeim og eða vegna skorts á náttúrulegum óvinum þeirra hérlendis. Tígulvefari (Epinotia solandriana) og haustfeti (Operophtera brumata) komu til landsins í byrjun síðustu aldar. Síðan 2005 hafa þrjár tegundir sem lifa inn í laufum birkis fundist á birki hérlendis, birkikemba (Heringocrania unimaculella), birkiþéla (Scolioneura betuleti) og Fenusella nana. Birkið á Íslandi var laust við slíkt át fyrir þann tíma. Birkiglitmölur (Argyresthia goedartella) er líka nýlegur landnemi en lirfa hans lifir í fræjum birkis. Ekki er vitað hversu miklu frætapi hann veldur hérlendis.