Skip to main content
search

Blábakteríur og áhrif þeirra í vistkerfi Mývatns

Tímamörk

Langtímaverkefni.

Samstarfsaðilar

 

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Markmið verkefnisins er að kortleggja helstu tegundir blábaktería (Cyanobacteria) í Mývatni í tíma og rúmi og mæla niturbindingu þeirra, áhrif á birtuskilyrði og eituráhrif. 

Helstu undirverkefni eru: 

  • Tegundasamsetning og útbreiðsla blábaktería í svifi
  • Niturbinding blábaktería í svifi og á botni
  • Áhrif blábaktería á svifdýr
  • Áhrif blábaktería á mýlirfur
  • Saga blábakteríumors í vatninu fyrir 1970
  • Eiturefni í blábakteríum Mývatns
  • Blábakteríur í svifi annarra vatna á Íslandi
  • Samkeppni blábaktería og grænþörungasvifs
  • Áhrif blábaktería á botngróður

Nánari upplýsingar

Mývatn sýnir tvær megingerðir breytinga í tíma: 

  1. Sveiflur sem vara í 5–9 ár og einkennast af lágmarksárum með átuskorti (fátt af mýi og krabbadýrum), viðkomubresti hjá bleikju og fuglum og mikilli fjölgun blábaktería.
  2. Langtímahnignun með versnandi birtuskilyrðum, samdrætti í botngróðri, þéttara og langvinnara blábakteríumori á sumrin og fækkun mýflugna og silungs. 

Þó blábakteríumor sé náttúrulegt í hinu frjósama Mývatni virðist það nú orðið þykkara, útbreiddara og vara lengur fram á haust en áður. Á árunum 2014 og 2015 var það sérstaklega þykkt. Á milli blábakteríuáranna hafa komið tímabil þar sem vatnið er tiltölulega tært, stundum mjög tært allt sumarið, en tíðni slíkra tilfella virðist fara minnkandi. Samhliða hefur grænþörungateppið, sem áður einkenndi Syðriflóa, látið undan síga og árið 2024 var það horfið að mestu. Líklegasta skýringin á hvarfi þörungamottunnar er birtuleysi af völdum blábaktería. 

Blábakteríur geta þó einnig haft jákvæð áhrif. Þær stuðla að frjósemi vatnsins með niturbindingu og eru mikilvæg fæða fyrir bitmý og þar með fyrir allt lífríki Laxár. Helstu vinnutilgátur snúa að áhrifum mýlirfa og/eða hornsíla á fosfórframboð sem geti í raun „kveikt eða slökkt” á blábakteríublómanum – mýlirfurnar með því að breyta súrefnisástandi og/eða smáþörungagróðri á botninum og hornsíli með því að hraða veltu næringarefna.

Niðurstöður

 

Tengiliður

Sölvi Rúnar Vignisson, vistfræðingur.