Skip to main content
search

Hið síkvika vistkerfi Mývatns

Tímamörk

Langtímaverkefni.

Samstarfsaðilar

 

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Verkefnið felst í að skrá breytingar á vistkerfi Mývatns og greina orsakir þeirra með áherslu á tengsl í fæðuvef, næringarefnahringrás og birtuskilyrði. Sérstök áhersla er lögð á þróun reiknilíkana sem lýsa vistkerfinu og geta varpað ljósi á viðbrögð þess við breytingum á ytri aðstæðum.

Helstu verkþættir eru: 

  • Að kanna áhrif mýlirfa á framleiðslu kísilþörunga
  • Að kanna áhrif kísilþörunga á mýlifur
  • Að kanna áhrif mýlirfa á efnaflæði milli vatns og botnsets
  • Vöktun lífríkis 

Nánari upplýsingar

Rannsóknir á lífríki Mývatns hafa í sívaxandi mæli beinst að fæðuvef vatnsins, sem sýnir hvernig efni berst frá einu fæðuþrepi til annars. Vöktun hefur leitt í ljós miklar og sveiflukenndar breytingar. Yfirleitt ríkir góðæri með ríkulegu fæðuframboði fyrir fugla og fiska en á stuttum tíma, innan tveggja til þriggja missera, getur þetta ástand breyst í hallæri með nær algerum átuskorti. Þá dregur úr viðkomu bleikju og vatnafugla án þess að sjáanlegar breytinar verði á ytra umhverfi vatnsins, svo sem veðurfari, súrefnisástandi eða grunnvatni. Yfirleitt tekur lífríkið tvö til þrjú ár að jafna sig en svo endurtekur sagan sig. Fyrsta skráða lífríkishrunið varð 1970. 

Ekki er talið að þessar öfgakenndu sveiflur hafi verið viðfarandi langt aftur í tímann. Þótt lífríkið hafi án efa verið einhverjum sveiflum undirorpið alla tíð hljóta lægðirnar yfirleitt að hafa verið mildari. Lífríkishrunin hafa hindrað eðlilega endurnýjun bleikjustofnsins og gert hann sérstaklega viðkvæman fyrir veiði. Sveiflurnar virðast tengjast innviðum fæðuvefsins sjálfs frekar en utanaðkomandi þáttum. Margt bendir til þess að slæðumý (Tanytarsus gracilentus) sé undirrót þeirra. Lirfur tegundarinnar geta náð svo miklum þéttleika á botni vatnsins að fæða gengur til þurrðar og stofninn hrynur. Þetta hefur áhrif á aðra lífverustofna í vatninu þar sem þeir eru ýmist keppinautar lirfanna eða  ofar í fæðuvefnum. 

Reiknilíkan hefur verið notað til að líkja eftir atburðarás sveiflunnar. Niðurstöður benda til að lífríki vatnsins sé mjög viðkvæmt, jafnvel fyrir smávægilegum breytingum á ytri aðstæðum. Lífríkislag botnsins hefur sennilega mikil áhrif á næringarefnaskipti milli botnsets og vatnbols og getur haft áhrif á umfang blábakteríublóma. 

Framtíðaráherslur:

Á næstu árum er stefnt að því að:

  • Hefja rannsóknir á áhrifum hornsíla á átustofna og næringarefnaveltu
  • Kanna útbreiðslu og lífsskilyrði kúluskíts í öðrum vötnum en Mývatni, þar sem hann er nánast horfinn
  • Efla líkanagerð til að spá fyrir um vistkerfisbreytingar við mismunandi aðstæður

Niðurstöður

 

Tengiliður

Sölvi Rúnar Vignisson, vistfræðingur.