Vatnafuglastofnar á Mývatni og Laxá

Tímamörk
Vöktun vatnafuglategunda á Mývatni hófst árið 1975 og nær nú einnig til Laxár. Verkefnið er hluti af langtímarannsóknum á vistkerfi svæðisins.
Samstarfsaðilar
Um verkefnið – Markmið og verkþættir
Markmið verkefnisins er að fylgjast með stofnstærðum, viðkomu og langtímabreytingum vatnafuglastofna á Mývatni og í Laxá, greina orsakir breytinga og setja niðurstöður í samhengi við aðra þætti vistkerfisins.
Helstu verkþættir eru:
- Árlegar talningar varpstofna og metin viðkoma lykiltegunda
- Greining á tengslum stofnbreytinga við fæðuframboð, einkum mýlirfur, krabbadýr og hornsíli
- Langtímagreining á þróun einstakra fuglastofna
- Samanburður á skammtíma- og langtímabreytingum í stofnum
- Mat á áhrifum umhverfisbreytinga í Mývatni á fuglalíf í Laxá
Nánari upplýsingar
Mývatn er þekkt fyrir einstaklega fjölbreytt fuglalíf og mikinn fjölda vatnafugla. Afkoma margra andategunda mótast af reglubundnum átusveiflum; í árum með lítilli átu tekst sjaldan að koma upp ungum en í átuárum gengur varp yfirleitt vel. Veðurlag ræður sjaldan úrslitum. Flestar af þeim 14 andartegundum sem verpa við Mývatn og Laxá lifa á mýlirfum og krabbadýrum á vatnsbotninum en viðkoma flórgoða er þó nátengd hornsílafjölda í vatninu.
Engin einföld eða einsleit þróun sést hjá varpstofnum vatnafuglategunda á svæðinu. Flórgoða, gargönd og skúfönd hefur fjölgað verulega á meðan viðkomubrestur og fækkun hefur átt sér stað hjá duggönd og straumönd. Breytingar á stærð varpstofnanna eru annars vegar skammtímasveiflur sem endurspegla átuástand og koma fram í fjölda fullorðinna fugla árin á eftir og hins vegar langtímabreytingar sem eru mismunandi eftir tegundum. Líklegt er að skilyrði á vetrarstöðvum hafi áhrif en einnig geta breytingar á netaveiði í Mývatni haft sitt að segja. Duggönd sýnir ein skýra langtímahnignum, líklega vegna minnkandi krabbadýraátu, rýrnurar þörungamottunnar og samkeppni við harðgerðari tegund, skúfönd, sem nam hér land um aldamótin 1900 og hefur fjölgað mikið síðan.
Í Laxá endurspeglast ástand mála af lífríkissveiflunum í Mývatni. Lífríki efri hluta árinnar einkennist af bitmýi, urriða, húsönd og straumönd. Bitmýslirfur sía svifþörunga og blábakteríur úr árvatninu og nærast á þeim. Þegar blábakteríumor er í Mývatni eykst bitmýsstofninn og tvær kynslóðir koma fram á sumri í stað einnar. Þetta hefur bein áhrif á afkomu húsandar, straumandar og urriða. Hrun straumandarstofnsins sem hófst 2009 er óvenjulegt og áhyggjuefni; mögulegt er að aukið aukið afrán urriða á andarungum eigi þar hlut að máli en urriðarnir hafa stækkað eftir að stangveiðimenn hófu að sleppa veiddum fiskum í stað þess að aflífa þá.
Niðurstöður
Tengiliður
Sölvi Rúnar Vignisson, vistfræðingur.