Vöktun helsingja

Tímamörk
Rannsóknaverkefni 2009, 2019, 2020–2026
Samstarfsaðilar
Náttúruverndarstofnun, Náttúrustofa Norðvesturlands, Náttúrustofa Suðausturlands, Náttúrustofa Austurlands og Verkís.
Styrkir
Fyrsta talning 2009 var unnin fyrir Landsvirkjun (LV-2012/045) og Orkusöluna ehf (ORK 1204); talning 2019 var styrkt af Vinum Vatnajökuls. Frá 2020 hefur umhverfisráðuneytið styrkt vöktunina að hluta.
Um verkefnið – Markmið og verkþættir
Vorið 2009 kannaði Náttúrufræðistofnun Íslands helsingjavarp við Hólmsá í Vestur-Skaftafellssýslu að beiðni Landsvirkjunar Power og Rarik í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Hólmsárvirkjunar. Orkusalan ehf. tók síðan yfir hlut Rarik í verkefninu.
Helsingjar voru farnir að verpa við Hólmsá árið 1999 (sjá Vistgerðir á fjórum hálendissvæðum) en voru settir á Válista 2000 vegna þess hve varpstofninn var fáliðaður hér á landi. Árið 1999 var veiðitími á helsingjum styttur í Skaftafellssýslum og veiði leyfð frá 25. september í stað 1. september.
Vegna hraðrar fjölgunar í varpstofni helsingja á Íslandi 2014 til 2018 tóku Náttúrustofa Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands höndum saman um að gera heildstæða úttekt á helsingjavarp á Suðausturlandi 2019.
Árið 2020 var unnin umfangsmikil vöktunaráætlun fyrir stofnstærð helsingja og mat á beitaráhrifum 2020–2026 (sjá samstarfsaðila hér að framan) í tengslum við alþjóðlegt samstarfsverkefni á vegum AEWA-samningsins (African-Eurasian Migratory Waterbird Agreement), sem fjallar um vernd votlendisfarfugla og búsvæði þeirra. Heildarstofnstærð er metin á þriggja ára fresti á vetrarstöðvum. Með talningum á Íslandi að vorlagi sömu ár má meta hlutdeild íslenska varpstofnsins af heildarstofni, en afgangurinn er þá af grænlenskum uppruna.
Frá árinu 2020 hafa helsingjar fengið GPS senda á SA-landi sem gefa miklar og nákvæmar upplýsingar um far hegðun, atferli, búsvæðanotkun og vetrarstöðvar helsingja. Nánari upplýsingar um ferðir GPS merktra helsingja má finna í kortasjá Verkís.
Nánari upplýsingar
Niðurstöður
Svenja N.V. Auhage, Lilja Jóhannesdóttir, Arnór Þórir Sigfússon, Brynjúlfur Brynjólfsson og Bjarni Jónasson. (2024). Helsingjavöktun á Íslandi 2023. Náttúrustofa Suðausturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Lilja Jóhannesdóttir og Hólmfríður Jakobsdóttir. (2022) Fuglaflensa í helsingjum á Íslandi haust 2022. Minnisblað. Náttúrustofa Suðausturlands.
Lilja Jóhannesdóttir, Kristín Hermannsdóttir & Svenja N.V. Auhage. (2021). Helsingjavarp í Skaftafellssýslum 2020. Náttúrustofa Suðausturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Lilja Jóhannesdóttir, Kristín Hermannsdóttir & Svenja N.V. Auhage. (2020). Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019. Náttúrustofa Suðausturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Svenja N.V. Auhage. (2012). Helsingjar við Hólmsá. NÍ-12008. Náttúrufræðistofnun Íslands.
Tengiliður
Svenja N.V. Auhage.