Skip to main content
search

Landmælingar Íslands

Saga landmælinga á Íslandi nær aftur til upphafs 20. aldar, þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins, síðar Geodætisk Institut, hóf kortagerð á landinu. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900–1940 og skilaði 670 kortatitlum. Þar af voru 227 gefnir út, meðal annars Atlaskortin og Herforingjaráðskortin. Mikilvæg frumgögn eins og teikningar, ljósmyndir og mælingabækur urðu til við vinnuna og voru þau fyrst varðveitt hjá Geodætisk Institut en síðar flutt til Íslands og lauk því ferli árið 1985.

Árið 1951 hófst sérhæfð loftmyndataka til kortagerðar hér á landi. Danir höfðu áður tekið skámyndir árin 1937–1938 til að styðja við kortagerð af hálendinu. Kerfisbundin loftmyndataka stóð yfir til ársins 2000.

Á árunum 1955–1956 framkvæmdi NATO umfangsmiklar landmælingar á Íslandi sem hluta af sameiginlegu mælingaverkefni þjóða við Norður-Atlantshaf. Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins (AMS) stýrði verkefninu hér á landi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut. Afraksturinn var meðal annars þríhyrningamælinetið Hjörsey 1955 og flokkur staðfræðikorta í mælikvarða 1:50.000. Um 200 kortablöð þöktu landið allt.

Landmælingar Íslands voru stofnaðar sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og tóku formlega við verkefnum á sviði mælinga, loftmyndatöku og kortagerðar. Fram að þeim tíma heyrði þessi starfsemi undir Vegagerð ríkisins. Helstu verkefni fyrstu árin voru endurskoðun eldri korta og öflun loftmynda fyrir innlend og erlend verkefni.

Árið 1963 hætti Geodætisk Institut kortagerð hér á landi og ábyrgðin fluttist til Landmælinga Íslands. Árið 1965 keypti stofnunin Íslandskortalagerinn og filmur og árið 1973 fékk stofnunin einnig útgáfu- og höfundarrétt á kortunum. Árið 1985 voru sett lög um Landmælingar Íslands (nr. 31/1985) og við endurskoðun árið 1990 (nr. 47/1990) var stofnunin færð undir nýtt umhverfisráðuneyti. 

Stofnunin tileinkaði sér nýja tækni. Árið 1991 fékk hún búnað til vinnslu gervitunglamynda og ári síðar eignaðist hún gervitunglamyndir af öllu landinu, teknar á tímabilinu 1986–1992. Árið 1993 hófst GPS-mæling á grunnstöðvanetinu ISN93 sem leysti Hjörsey 1955 af hólmi. Netið, sem samanstóð af 119 mælistöðvum, lagði grunn að stafrænni kortagerð og byggðist verkefnið á samstarfi við fjölda stofnana og sveitarfélög auk þess sem þýska kortastofnunin lánaði tækjabúnað og sérfræðinga til verksins.

Árið 1996 var ákveðið að flytja Landmælingar Íslands til Akraness. Starfsemi hófst þar 1. janúar 1999 og um helmingur starfsfólks sagði upp. Um svipað leyti hófst vinna við stafrænan gagnagrunn í mælikvarða 1:50.000 (IS 50V). Grunnurinn byggði upphaflega á eldri kortum en hefur verið uppfærður með nýjum gögnum í samstarfi við opinbera aðila. Fyrsta formlega útgáfan kom út árið 2003 og hefur hann verið uppfærður reglulega síðan og er líklega mest notaði kortagrunnur landsins.

Um aldamót urðu breytingar. Síðasta kerfisbundna loftmyndaflugið á vegum stofnunarinnar var sumarið 1998, næstu tvö ár var myndatakan boðin út og árið 2000 lauk um hálfrar aldar sögu loftmyndatöku hjá stofnuninni. Einkaaðilar tóku þá við hlutverkinu. Í ársbyrjum bauð stofnunin að nýju út loftmyndaþekju af Íslandi og er gert ráð fyrir að hún verði tilbúin í árslok 2027.

Stofnunin beindi sjónum að stafrænum lausnum, fjarkönnun og uppbyggingu gagnagrunna. Grunnstöðvanetið er undirstaða nákvæmra landmælinga, stafrænnar kortagerðar og landfræðilegra upplýsingakerfa. Árið 2004 var ISN93-netið endurmælt og ISN2004 tekið í notkun. Endurmæling fór aftur fram sumarið 2016. 

Á 50 ára afmæli stofnunarinnar 2006 voru sett ný lög um landmælingar og grunnkortagerð (nr. 103/2006) þar sem kveðið var á um að stofnunin skyldi hætta allri framleiðslu og sölu prentaðra korta. Kortalager og kortaútgáfa voru seld Iðnmennt.

Á árunum 2002–2006 voru keyptar  SPOT 5-gervitunglamyndir sem leiddu til útgáfu skýjalausrar myndaþekju af öllu landinu árið 2006. Myndirnar nýttust meðal annars við uppfærslu IS 50V-kortagrunnsins og CORINE-verkefnið sem Landmælingar Íslands hafa haft umsjón með hér á landi frá árinu 2007. CORINE miðar að því að safna, samræma og uppfæra upplýsingar um landgerðir í Evrópu. 

Árið 2008 hófst undirbúningur innleiðingar INSPIRE-tilskipunar Evrópusambandsins sem miðar að því að gera opinberar landfræðilegar upplýsingar aðgengilegar. Árið 2011 voru samþykkt ný lög (nr. 44/2011) um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar þar sem grundvallaratriði INSPIRE-tilskipunarinnar voru innleidd og var framkvæmd laganna falin Landmælingum Íslands. 

Sama ár var gefið út samræmt hæðarkerfi fyrir Ísland með viðmiðuninni ISH2004. Líkt og ISN93 skapaði grunn að samræmdu hnitakerfi fyrir landið veitti ISH2004 grunn að samræmdu hæðarkerfi, sem er mikilvægt fyrir margvíslegar framkvæmdir, svo sem vegagerð og jarðgangnagerð, sem og á sviðum umhverfisvöktunar, skipulags- og áætlanagerðar. Verkefnið stóð yfir í 18 sumur í samstarfi við Vegagerðina og Landsvirkjun. Stöðugt er unnið að viðhaldi kerfisins og mælingum bætt inn í það.

Árið 2009 hóf stofnunin uppbyggingu GNSS-jarðstöðvanets sem er lykilþáttur í viðhaldi og vöktun grunnstöðva- og hæðarnets landsins. Netið nýtist í vísindarannsóknum og eykur nákvæmni og afköst við landmælingar og leiðsögu. 

Í janúar 2013 voru öll gögn Landmælinga Íslands gerð gjaldfrjáls, sem margfaldaði notkun þeirra. Stofnunin byggði upp stórt og merkilegt safn korta, ljósmynda og loftmynda. Kortasafnið telur um 2.700 kort, loftmyndasafnið um 140.000 myndir, og einnig eru varðveittar teikningar og ljósmyndir frá mælingum Dana á árunum 1900–1940. Lokið hefur verið við  skráningu og skönnun allra þessara gagna og eru þau þannig aðgengileg öllum í Loftmyndasjá og Kortasafni. Stofnunin bar ábyrgð á örnefnagrunninum og vann að skráningu, viðhaldi og miðlun í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, samkvæmt lögum nr. 22/2015, um örnefni. Í árslok 2024 voru skráð 188.600 örnefni í grunninn.

Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á miðlun kortagagna Landmælinga Íslands í gegnum hugbúnað sem starfsfólk stofnunarinnar þróaði (MapView) eða í gegnum kortaþjónustur. Sá hugbúnaður er einnig notaður af öðrum íslenskum stofnunum til birtingar kortagagna. 

Landmælingar Íslands lögðu mikla áherslu á samstarf innanlands sem utan, sem stuðlaði að bættri þekkingu og aðgengi að landupplýsingum. Stofnunin var m.a. landstengiliður Copernicus-áætlunar Evrópusambandsins, virkur þátttakandi í UN-GGIM starfi Sameinuðu þjóðanna, meðlimur Eurogeographics, samtaka evrópskra korta- og fasteignastofnana auk þess að vera mjög virk í norrænu samstarfi norrænna korta- og landmælingastofnana.

Starfsfólk tók frá upphafi þátt í könnuninni Stofnun ársins, þar sem starfsumhverfi og starfsánægja ríkisstarfsmanna eru metin. Stofnunin skoraði jafnan hátt og hlaut alls sjö sinnum fimmta sæti eða hærra, þar af tvisvar fyrsta sæti í sínum stærðarflokki.

Við sameiningu Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, 1. júlí 2024, störfuðu 24 starfsmenn hjá Landmælingum Íslands.

Frá stofnun Landmælinga Íslands árið 1956 og þar til stofnunin sameinaðist með öðrum stofnunum árið 2024, gegndu eftirfarandi einstaklingar stöðu forstjóra: 

  • Geir G. Zoëga (1956–1959)
  • Ágúst Böðvarsson (1959–1976)
  • Bragi Guðmundsson (1976–1985)
  • Birgir Guðjónsson (1985)
  • Ágúst Guðmundsson (1985–1998)
  • Magnús Guðmundsson (1999–2018)
  • Eydís Líndal Finnbogadóttir (2018–2021)
  • Gunnar Haukur Kristinsson (2022–2024)