Skip to main content
search

Náttúrufræðistofnun Íslands

Saga Náttúrufræðistofnunar Íslands á rætur að rekja til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) var stofnað með það að markmiði að koma á fót íslensku náttúrugripasafni í Reykjavík. Strax fyrsta árið eignaðist félagið talsvert af náttúrugripum sem mynduðu fyrsta vísinn að safninu og jókst safnkosturinn smám saman þar sem margir lögðu safninu lið með gjöfum. Safnið var í fyrstu nefnt Safn Hins íslenska náttúrufræðifélags en fljótlega tók það að ganga undir heitinu Náttúrugripasafnið eða Náttúrugripasafnið í Reykjavík. 

Hið íslenska náttúrufræðifélag rak Náttúrugripasafnið í nærri 60 ár, allt þar til það var afhent ríkinu í ársbyrjun 1947. Á þeim tíma hafði starfsemi safnsins mætt margvíslegum hindrunum, einkum vegna aðstöðuleysis, og flutti safnið sex sinnum fyrstu 18 árin. Mikil breyting varð þegar það fékk aðstöðu í nýbyggðu Safnahúsi við Hverfisgötu árið 1908. Þar hófst blómaskeið sem stóð til ársins 1960. Á þeim rúmu 50 árum festist safnastarf í sessi, starfsfólki og deildum fjölgaði og fræðsla, útgáfa, rannsóknir og vettvangsferðir urðu burðarásar í starfseminni.

Árið 1951 voru fyrstu lögin um safnið sett og hlaut það heitið Náttúrugripasafn Íslands. Þar var starfssvið þess skilgreint nánar: að safna náttúrugripum, annast fuglamerkingar, vinna að rannsóknum á náttúru Íslands, reka opinbert sýningarsafn og sinna verkefnum fyrir ríkisstjórnina. Safnið skyldi skiptast í þrjár deildir; dýrafræðideild, grasafræðideild og jarð- og landfræðideild. Starfsemin efldist hratt með fjölgun starfsfólks, söfnin stækkuðu, rannsóknum fjölgaði og starfssviðið víkkaði. Meðal starfsfólks voru brautryðendur í náttúruvernd, þeir Finnur Guðmundsson og Sigurður Þórarinsson, sem áttu ríkan þátt í setningu fyrstu laga um náttúruvernd árið 1956.

Haustið 1959 flutti safnið í skrifstofuhúsnæði við Hlemmtorg og árið 1960 var sýningarsafninu í Safnahúsinu lokað. Sýningarhald lá niðri næstu sjö árin en árið 1967 var sett upp sýning í húsnæðinu við Hlemm sem upphaflega var hugsuð sem bráðabirgðalausn. Hún stóð þó allt til ársins 2008. 

Árið 1965 voru sett ný lög um safnið þar sem því var falið að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins, auk þess sem aukin áhersla var lögð á ráðgjöf til stjórnvalda. Nafni stofnunarinnar var breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands en jafnframt hélt nafnið Náttúrugripasafn lífi áfram í daglegu tali, einkum í tengslum við sýningarhlutverkið. 

Fram til ársins 1990 heyrði stofnunin undir menntamálaráðuneytið en þá var hún færð undir nýstofnað umhverfisráðuneyti. Áratugina eftir 1965 þróaðist starfsemi stofnunarinnar jafnt og þétt, með fjölgun verkefna, uppbyggingu vísindasafna og vaxandi áherslu á náttúruvöktun og gagnasöfnun. 

Árið 1992 voru samþykkt ný lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, sem tóku gildi 1. janúar 1994. Þau leiddu til verulegra breytinga á skipulagi og stjórn stofnunarinnar.  Deildaskipting var afnumin og stofnuninni var heimilað að starfa á allt að fimm setrum á landinu. Hvert setur skyldi hafa sinn forstöðumann en forstjóri yrði yfirmaður stofnunarinnar í heild. Setrin urðu þó aldrei nema tvö, Akureyrarsetur og Reykjavíkursetur. 

Akureyrarsetrið átti rætur að rekja til stofnunar Náttúrugripasafnsins á Akureyri árið 1952. Árið 1987 var rekstri þess breytt og til varð Náttúrufræðistofnun Norðurlands, sem einbeitti sér að rannsóknum á náttúru Norðurlands. Um áramótin 1993–1994 sameinaðist sú stofnun Náttúrufræðistofnun Íslands og varð þar með formlega hluti af henni. Fyrir sameininguna var þó samstarf og ákveðin verkaskipting á milli stofnananna, til dæmis um rannsóknir á sveppum og fléttum landsins sem eingöngu fóru fram á Akureyri. Starfsemi Akureyrarseturs var fyrst til húsa að Hafnarstræti 81, í gömlu húsnæði Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Árið 1996 fluttist setrið í verslunar- og þjónustukjarnann Krónuna að Hafnarstræti 97 en árið 2004 flutti það í rannsóknarhúsið Borgir við Norðurslóð. Þar voru starfsaðstæður stórbættar og hefur starfsstöð Náttúrufræðistofnunar á Akureyri verið þar til húsa síðan. 

Í lok árs 2005 var ákveðið að breyta stjórnskipulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands í því skyni að gera það einfaldara og skilvirkara. Breytingarnar fólust meðal annars í því að leggja niður setrin sem meginstarfseiningar og taka í staðinn upp skipulag þar sem stofnuninni var skipt í deildir sem tóku mið af helstu hlutverkum hennar. Auk þess var skapaður sameiginlegur vettvangur fyrir grunneiningarnar þrjár: jarðfræði, grasafræði og dýrafræði. Með þessu fyrirkomulagi varð stofnunin ein fagleg og fjárhagsleg heild með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Akureyri. 

Með lögunum frá 1992 varð hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands afar víðtækt. Hún skyldi stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands, varðveita náttúrugripi og gögn í heimildasöfnum og byggja upp aðgengileg gagnasöfn um náttúru landsins. Hún skyldi skrá kerfisbundið einstaka þætti náttúrunnar og annast útgáfu korta, meðal annars jarðfræðikorta og korta um útbreiðslu tegunda. Þá átti stofnunin að leiðbeina um nýtingu náttúruauðlinda, aðstoða við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja, rannsaka villta stofna fugla og spendýra og annast fuglamerkingar. Einnig skyldi hún birta niðurstöður í fræðiritum, gera grein fyrir helstu þáttum í starfseminni í ársskýrslum, styðja við uppbyggingu sýningarsafna og miðla þekkingu til skóla, fjölmiðla og almennings.

Á starfstíma stofnunarinnar urðu fjölmargar breytingar á starfsháttum og verkefnum. Með Safnalögum árið 2001 var sýningarhlutverkið fært yfir til nýstofnaðs Náttúruminjasafns Íslands undir menntamálaráðuneyti. Lög um Náttúruminjasafnið voru samþykkt árið 2007 og í framhaldi var sýningarsölum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Hlemmi lokað 1. apríl 2008. Stofnunin hélt þá áfram sem rannsóknastofnun með áherslu á náttúruvöktun, ráðgjöf, uppbyggingu vísindasafna og skráningu náttúruminja. 

Árið 2010 fluttist starfsemin í nýbyggt hús í Urriðaholti í Garðabæ, þar sem aðstaða til rannsókna, fræðslu og daglegra starfa batnaði verulega. Þar eru fullkomnar geymslur fyrir náttúrugripi og skjöl, rannsóknarstofur, skrifstofur og sérútbúið rannsóknaumhverfi. Höfuðstöðvar stofnunarinnar voru staðsettar þar til sameiningar árið 2024. 

Saga Náttúrufræðistofnunar Íslands markast af stöðugri þróun, vaxandi ábyrgð og síbreytilegum áskorunum í umhverfi sem krefst þekkingar, nákvæmni og fagmennsku. Verkefnin á starfstíma hennar voru fjölbreytt og metnaðarfull og ekki er hægt að tíunda þau öll hér. Þó má sérstaklega nefna mikla framþróun á sviði kortagerðar, gagnaöflunar og gagnagrunna þar sem unnið var að því að færa gögn yfir á stafrænt form og þróa opin gagnasöfn og veflausnir. 

Eitt mikilvægt verkefni stofnunarinnar var kortlagning vistgerða Íslands í mælikvarðanum 1:25.000 en verkefnið fól í sér að flokka, lýsa og skrá vistgerðir landsins og birta kortið rafrænt í kortasjá. Gögnin nýtast meðal annars við gerð náttúruverndaráætlana, mat á verndargildi svæða og skipulagsvinnu. Auk vistgerðakortsins hafa mörg önnur kortaverkefni verið gefin út í kortasjám: mikilvæg fuglasvæði á Íslandi, jarðfræðileg fyrirbæri, ofanflóð, náttúruminjaskrá, sérstök vernd vistkerfa og jarðminja, selalátur við strendur Íslands, vetrarfuglatalningar, vöktun náttúruverndarsvæða og eldri gróður- og jarðakort. Þá vann stofnunin að gerð líkans fyrir stjórnun rjúpnaveiði, þróun frjókornaeftirlits, sýnatöku vegna sveppagreininga í byggingum, auk fjölbreyttrar náttúruvöktunar. 

Með nýjum náttúruverndarlögum nr. 60/2013, sem tóku gildi árið 2015, færðist aukin ábyrgð til stofnunarinnar á ýmsum sviðum náttúruverndar. Henni var meðal annars falið að annast mat á ákjósanlegri verndarstöðu vistgerða og tegunda; hafa umsjón með náttúruminjaskrá, þar með talið skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra og verndarþörf, og gera tillögur um friðlýsingar; bera ábyrgð á heildstæðri vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru; halda skrá og gera yfirlitskort yfir jarðmyndanir, vistkerfi og önnur náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar; og vinna að verndun jarðminja. Til viðbótar þessu fékk stofnunin aukið umsagnarhlutverk við mat á framkvæmdum. Lögin undirstrikuðu mikilvægi samræmdrar skráningar, miðlunar upplýsinga og skipulegrar uppbyggingar verndarsvæða á vísindalegum grunni.

Á löngum starfstíma átti stofnunin í virku samstarfi við fjölda innlendra og erlendra aðila, þar á meðal háskóla, rannsóknastofnanir, sveitarfélög og áhugafólk um náttúruvísindi. Nokkrir einstaklingar hlutu heiðursviðurkenningar á starfstíma stofnunarinnar fyrir ómetanlegt framlag til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands og fyrir að stuðla að heildstæðri lýsingu Íslands. Þá tók stofnunin þátt í alþjóðlegu samstarfi, meðal annars á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsvöktunar, vöktunar framandi tegunda og náttúruverndar. 

Við sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn störfuðu um 50 starfsmenn hjá stofnuninni. Hefð var fyrir því að einstaklingar sem átt höfðu langt og farsælt starf á stofnuninni voru sæmdir Gullmerki Náttúrufræðistofnunar Íslands við starfslok.

Á meðan Náttúrugripasafnið var rekið af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi voru umsjónarmenn safnsins: Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1889–1900), Helgi Pjeturss (1900–1905), Bjarni Sæmundsson (1905–1940) og Finnur Guðmundsson (1940–1947). Á árunum 1947–1992 skiptu forstöðumenn deilda með sér forstöðumannsstöðu stofnunarinnar: Finnur Guðmundsson, Sigurður Þórarinsson, Eyþór Einarsson, Sveinn Jakobsson og Ævar Petersen. 

Forstjórastaða var lögfest árið 1992 og tók Jón Gunnar Ottósson við starfi forstjóra við gildistöku laganna árið 1994. Ævar Petersen gegndi stöðu forstöðumanns á Reykjavíkursetri frá 1994 til 2005 en á Akureyrarsetri var það Hörður Kristinsson sem hafði forstöðu á árunum 1994 til 1999 og Kristinn J. Albertsson frá 1999 til 2005. Eftir að setrin voru lögð niður árið 2005 varð Kristinn J. staðarhaldari starfsstöðvarinnar á Akureyri. Jón Gunnar stýrði stofnuninni til loka árs 2020 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Þorkell Lindberg Þórarinsson gegndi stöðu forstjóra árið 2021 og frá árinu 2022 og fram að sameiningu árið 2024 var Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri.