Skip to main content
search

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) var stofnuð með lögum um verndun Mývatns og Laxár árið 1974. Markmið hennar var að stuðla að rannsóknum sem nýtast mættu við verndun svæðisins og lífríkis þess. Lögin voru hluti sáttagerðar milli ríkisstjórnarinnar og landeigenda á svæðinu eftir harða deilu um virkjunaráform í Laxá, svokallaða Laxárdeilu. Hefðu virkjunaráform náð fram að ganga hefði lífríki Laxár ofan Brúa verið nánast þurrkað út og lífríki Mývatns orðið fyrir óbætanlegum skaða. Áætlanir voru meðal annars um að gera röð uppistöðulóna í Laxárdal, færa farveg árinnar í skurð upp undir heiðarbrún og jafnvel leiða ána í göngum út úr Mývatni. Eins voru miklir vatnaflutningar áætlaðir þar sem Suðurá og Skjálfandafljót komu við sögu. Mývatn var jafnvel nefnt sem mögulegt uppistöðulón með umtalsverðri hækkun vatnsborðs. Á þessum tíma höfðu litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á lífríki Mývatns og Laxár en ýmsir málsmetandi náttúrufræðingar bentu á sérstöðu svæðisins og verndargildi þess. Heimamenn vissu það auðvitað manna best, en málflutningur þeirra var gjarnan afgreiddur sem rómantík og eiginhagsmunagæsla.

Þegar sátt náðist í Laxárdeilunni árið 1973, eftir að heimamenn höfðu jafnvel gripið til þess örþrifaráðs að sprengja stíflu í Miðkvísl Laxár, nærri útfalli Mývatns, var ákveðið að friðlýsa svæðið með lögum og koma á fót náttúrurannsóknastöð við vatnið. Nú er hálf öld liðin frá lagasetningunni 1974, stofnun verndarsvæðisins og Ramý.

Árið 1974 var komið upp bráðabirgðahúsnæði fyrir rannsóknastöð á Geirastöðum með stuðningi Seðlabankans. Engar fjárveitingar fylgdu til starfseminnar í fyrstu en Náttúruverndarráð tók að sér rekstur húsnæðisins, þar sem friðlandið var í umsjá þess. Húsnæðið eitt laðaði strax að sér vísindafólk frá Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun og í samvinnu þessara stofnana voru strax lögð drög að vöktun lífríkisins, sem smám saman þróaðist í víðtæka náttúruvöktun sem enn er stunduð. Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði og Gísli Már Gíslason prófessor í vatnalíffræði léku lykilhlutverk í upphafi með því að beina rannsóknum sínum og nemenda sinna að vatninu og ánni.

Framan af fékk Ramý engar fjárveitingar og var Líffræðistofnun Háskóla Íslands burðarás starfseminnar og kom í hlut hennar að undirbúa vöktun lífríkisins með vissum grundvallarrannsóknum. Árið 1985 fékkst fyrst fjárveiting til að ráða sérfræðing til rannsóknastöðvarinnar og var Árni Einarsson ráðinn í það starf. Seinna, þegar stöðin var gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun, varð hann forstöðumaður stöðvarinnar og gegndi því starfi til ársins 2024. Árið 2009 fékkst aukafjárveiting til að ráða fastan starfsmann til viðbótar, Unni Jökulsdóttur, sem starfaði sem fræðslu- og kynningarstjóri. Annað starfsfólk var að mestu leyti ráðið til sumarstarfa eða að erlendir sjálfboðaliðar komu í starfsþjálfun. Árið 1987 flutti rannsóknastöðin í gamla prestshúsið á Skútustöðum, steinhús frá 1927, sem beið niðurrifs. Var húsið gert upp og hefur þjónað sem rannsóknastöð æ síðan. Samvinna Háskóla Íslands og rannsóknastöðvarinnar gat af sér verðmætt gagnasafn um langtímabreytingar á vistkerfi Mývatns og Laxár. Áhugi vísindasamfélagsins — og fólks almennt — á Mývatni jókst við þetta. 

Á árunum 2023–24 var gamla skólahúsið á Skútustöðum tekið undir starfsemi nokkurra ríkisstofnana, Vatnajökulsþjóðgarðs, Ramý, Umhverfisstofnunar og Landgræðslunnar. Ramý flutti hluta af starfsemi sinni þangað en náttúruvöktunardeildin var áfram í prestshúsinu. Árið 2024 urðu ennfremur þau tímamót að rannsóknastöðin varð hluti af nýrri Náttúrufræðistofnun sem skapaðist við sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Ramý. Vegna lögformlegrar stöðu Ramý í Laxársáttmálanum er stöðin sýnileg eining innan hinnar nýju stofnunar.

Allt til ársins 2004 laut Ramý stjórn, sem hafði meðal annars það hlutverk að vera ráðgefandi um náttúruvernd í friðlandinu. Í stjórninni áttu sæti fulltrúar frá sveitarstjórnum, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruverndarráði. Lengst af gegndu þeir Arnþór Garðarsson og síðar Gísli Már Gíslason formennsku. Þegar stjórnir ríkisstofnana voru lagðar niður tók fagráð við hlutverki stjórnar með fulltrúum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Háskóla Íslands, Veiðimálastofnun og sveitarstjórn Skútustaðahrepps. Fagráðið var lagt niður við sameininguna 2024.

Vöktun lífríkis í Mývatni og Laxá hefur verið eitt af höfuðviðfangsefnum stöðvarinnar. Hún felst í að skrásetja ástand lífríkisins með reglubundnum hætti ár eftir ár og miðar að því að: (a) fá gögn um almennan breytileika milli ára og yfir lengri tímabil; (b) koma auga á langtímabreytingar svo að hægt verði að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða ef þörf er á og (c) greina hvaða þættir lífríkisins breytast í takt, svo að setja megi fram tilgátur um orsakatengsl. Við val á viðfangsefnum er lögð áhersla á að nota einfaldar, hagkvæmar og áreiðanlegar aðferðir og vakta helstu þrep í fæðukeðjunni. Fylgst er með stofnum vatnafugla, fiska, vatnaskordýra og krabbadýra, einnig þörungagróðri í svifi og á botni. Ennfremur er fylgst með efnasamsetningu uppsprettuvatns. Guðni Guðbergsson fiskifræðingur og Eydís Salome Eiríksdóttir jarðefnafræðingur, sem nú starfa á Hafrannsóknastofnun, unnu um langt árabil þétt með rannsóknastöðinni að vöktun Mývatns.

Fjölmargir erlendir vísindamenn hafa unnið við rannsóknir við Mývatn í samvinnu við Ramý. Á engan er hallað þó nefnt sé sérstaklega starf Anthony R. Ives, prófessors við háskólann í Wisconsin í Madison, sem hefur heimsótt stöðina með nemendum sínum árlega í tvo áratugi og leitað svara við grundvallarspurningum um gangverk lífríkisins í Mývatni með hugvitsamlegum mælingum og tilraunum. Af öðrum hópum ber að nefna fjölþjóðlega sveit fisk- og erfðafræðinga tengda Hólaskóla undir forystu Bjarna Kristófers Kristjánssonar og hóp frá háskólanum í Wisconsin í Madison undir stjórn Claudio Gratton sem greindi áhrif mýflugna á vistkerfi vatnsbakkans.

Á starfstíma Ramý, 1974–2024, birtust liðlega 330 fræðigreinar og skýrslur um Mývatn og Laxá sem tengdust starfsemi stöðvarinnar með einum eða öðrum hætti. Þar af eru 164 ritrýndar greinar eða bókarkaflar með beinni rannsóknaraðild Ramý. Á síðustu árum komu að meðaltali út 4–6 ritrýndar greinar árlega og hefur sá fjöldi farið vaxandi.