Fræðslustefna LMÍ
Landmælingar Íslands vilja auka faglega þekkingu og hæfni starfsfólks með því að gefa því kost á fræðslu og þjálfun. Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og vera undir það búin að þjálfa sig til nýrra verkefna og fá þannig tækifæri til að auka þekkingu og hæfni m.a. vegna faglegrar þróunar og nýjunga í starfseminni. Eftir því sem starfsfólk er færara að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni, því hæfari verður stofnunin til að sinna sínum framtíðarverkefnum og forystuhlutverki. Lögð er áhersla á að starfsfólk fái notið hæfileika sinna og hafi möguleika á að þróast í starfi.
Starfsþróun
Þess er vænst að starfsfólk hafi frumkvæði að endurmenntun og afli sér hennar í samráði við stjórnendur til þess að viðhalda kunnáttu í starfi sínu eða til þess að efla persónulega hæfni og þekkingu til faglegrar þróunar. Starfsþróun á að nýtast starfsmönnum og stofnuninni og er hún því jafnt á ábyrgð beggja aðila.
Landmælingar Íslands hafa mótað reglur um námsleyfi (LEI 021). Sækja má um styrki til náms í starfsþróunarsjóði BHM og SFR.
Stjórnendur veita stuðning og hvetja starfsfólk til að bæta þekkingu sína og þróast í starfi. Starfsmannasamtöl eru meðal annars vettvangur til að fara yfir fræðsluþarfir og starfsþróunaróskir starfsfólks.
Fræðsluáætlun
Á haustin vinnur framkvæmdastjórn ásamt starfsmannastjóra fræðsluáætlun fyrir næsta ár. Áætlunin byggist á tillögum starfsmanna, stefnu stofnunarinnar og áherslum í starfseminni. Við gerð fræðsluáætlunar skal hafa eftirfarandi að leiðarljósi:
- fræðsla stuðli að því að starfsfólk viðhaldi eða bæti þekkingu sína til að vaxa og þróast í starfi
- fræðsluviðburðir geta einnig gefið starfsfólki færi til persónulegs þroska
- fræðsla byggist á verkefnum og framtíðarsýn stofnunarinnar en taki einnig tillit til óska starfsfólks
Samhliða fræðsluáætluninni er lögð áhersla á að starfsfólk haldi áfram að efla nauðsynlega fagþekkingu og kunnáttu t.d. með annarri formlegri símenntun, starfsþjálfun, ráðstefnum, heimsóknum og miðlun þekkingar innan stofnunarinnar.
Miðlun og þróun þekkingar
Mikilvægt er að starfsfólk skrásetji faglega þekkingu sína eða miðli henni með þeim hætti að samstarfsfólk geti nýtt sér. Leiðir til þess eru m.a. starfsþróunaráætlun starfsmanns, fundargerðir, gæðahandbók, innri vefur og fræðsluviðburðir innanhúss. Stofnunin hvetur starfsfólk til að miðla einnig þekkingu sinni til samstarfsfólks með óformlegri hætti, s.s. að leiðbeina við notkun forrita og aðstoða við úrlausn verkefna.
Fræðslustefna var fyrst samþykkt á framkvæmdastjórnarfundi 10. febrúar 2016.